144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[17:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er á ferðinni annað frumvarp á nokkrum dögum eða vikum sem við ræðum frá hæstv. iðnaðarráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur um nýja skatta. Síðast var það sá skattur sem kallaður er reisupassinn eða náttúrupassinn og hér erum við komin með sérstakan þéttbýlisskatt. Það hlýtur að verða æ fleirum umhugsunarefni hvaða skattagleði er farin að ráða ríkjum í iðnaðarráðuneytinu eftir að Ragnheiður Elín Árnadóttir tók þar við forustu, því að hingað til hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið farið með skattamálin í landinu. Það kemur því út af fyrir sig spánskt fyrir sjónir að einstakur fagráðherra flytji í tvígang umfangsmikil frumvörp um nýja skatta fyrir málaflokk sinn.

Þetta er í fyrsta lagi þróun sem er ástæða til að vara við. Hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir er ekki eini fagráðherrann sem hefur áhuga á því að leggja á nýja skatta og ný gjöld til að kosta einhver verkefni í ráðuneyti sínu. Ef það verður almennt viðtekin venja hjá ríkisstjórninni að fagráðherrar flytji frumvörp um nýja skatta til að kosta einstaka þætti á málasviði sínu verður áður en við verður litið mikill skatta- og gjaldafrumskógur af alls kyns merktum nýjum sköttum og nýjum flækjum á skattkerfinu.

Það er kannski önnur ástæða fyrir því að þetta kemur á óvart frá hæstv. iðnaðarráðherra Ragnheiði Elínu Árnadóttur að ráðherrann hefur í pólitísku lífi sínu ekki talað sérstaklega fyrir skattahækkunum og, að ég hélt, raunar enn síður fyrir því að flækja skattkerfið. En þetta frumvarp, alveg eins og hið fyrra, er auðvitað til þess fallið að flækja skattkerfið. Hér er nýr skattur, þéttbýlisskattur. Hann leggst ekki aðeins á okkur í Reykjavík heldur á allt þéttbýlið, hringinn í kringum landið, til að greiða ákveðin verkefni sem ráðherrann hefur áhuga á. Þetta er þess vegna annað skref hjá ráðherranum á stuttum tíma til að flækja íslenska skattkerfið, sem ég hélt satt að segja að ráðherrann hefði talið að væri fyrir allt of flókið og þyrfti fremur að einfalda en að flækja. Það er sem sagt kominn skattmann í iðnaðarráðuneytið og verkefnið þess ráðherra virðist helst vera að flækja skattkerfið enn frekar frá því sem nú er.

Það er sjálfsagt mál að jafna kostnaðinn við að búa hér í landinu og um það verkefni tókst breið pólitísk samstaða. Þetta er gott dæmi um það hvernig þessari ríkisstjórn virðist ætla að takast að klúðra allri þeirri samstöðu sem hún getur klúðrað. Jafnvel þar sem fyrir lá samhljóða niðurstaða fulltrúa allra flokka um það hvernig ætti að leysa úr málinu tekst hæstv. iðnaðarráðherra að spilla þeirri samstöðu með því að ákveða að hafa þennan skatt miklu meiri en gert var ráð fyrir í hinni þverpólitísku tillögu, sem allir flokkar stóðu að, hafa þann skatt miklu meiri á venjulegt fólk í landinu sem býr á þéttbýlisstöðum hringinn í kringum landið, smáum sem stórum, og á allt almennt atvinnulíf í landinu. Og til hvers? Jú, í þeim eina tilgangi að hlífa stóriðjunni við því að taka þátt í kostnaðinum við það að flytja raforku í landinu.

Það er algerlega makalaust að þetta mál hefur í tvígang ekki náð fram að ganga, ekki orðið að lögum og ekki komið til framkvæmda þannig að það hafi jafnað flutningskostnað á raforku til góða fyrir fólk á hinum dreifbýlu svæðum, sem sjálfsagt hefði verið, vegna þess að ráðherrann hefur ekki verið til viðræðu um það. Það hefur ekki mátt orða það við hæstv. ráðherra að stóriðjan mætti taka þátt í þeim kostnaði eins og allir aðrir. Hefði hún fallist á það væru fyrir löngu hafnar niðurgreiðslur á flutningskostnaði í hinum dreifðu byggðum landsins. Það hefði sennilega orðið að veruleika þegar fyrir ári síðan. En vilji ráðherrans til að hækka frekar skatta á venjulegt fólk í landinu, venjuleg fyrirtæki og undanskilja stóriðjuna sérstaklega gjaldtöku hefur gert það að verkum að málið er ekki lengra komið en raun ber vitni. Málið er þannig útfært að það á heldur ekki að taka strax á því mikla réttlætismáli sem er frekari jöfnun húshitunarkostnaðar, en eins og við þekkjum er þeim byrðum gríðarlega misskipt í landinu.

Það er þess vegna sérstakt fagnaðarefni að sjá breytingartillögur frá 2. minni hluta við þetta mál. Þær gera ráð fyrir því að stóriðjan taki þátt í þessum kostnaði. Það eru ekki nema 6 aurar á kílóvattstundina og gerir það að verkum að þau gjöld sem nú eru á þeirri grein munu samt sem áður lækka, þrátt fyrir að þau greiddu 6 aura á kílóvattstundina til þessara verkefna. Það mundi gera það kleift að ráðast strax í frekari jöfnun á húshitunarkostnaði og sömuleiðis jöfnun á dreifingarkostnaði raforku. Ég skil ekki hvernig stjórnarliðar láta ráðherrann draga sig með í þann leiðangur að leggja á 30 aura þéttbýlisskatt til þess eins að hlífa stóriðjunni við því að taka þátt í sjálfsögðum kostnaði. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því við atkvæðagreiðslu á morgun að stjórnarliðar séu ekki tilbúnir til að láta stóriðjuna taka þátt í því að bera þann kostnað ásamt með öðrum fyrirtækjum í landinu og hinum. Ég satt að segja trúi ekki öðru. Það er í raun og veru algerlega furðulegt að þingmenn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins telji í raun að heimilin í landinu séu betur í stakk búin til að taka á sig skattahækkanir vegna þessa verkefnis en stóriðjan, að það eigi frekar að leggja skatt á heimilin í landinu en láta stóriðjuna taka þátt í kostnaðinum. Það eru eiginlega svo ótrúleg skilaboð til heimilanna í landinu, sem þessir sömu þingmenn hafa talað sig hása um að þeir ætli að standa vörð um, að það kallar a.m.k. á það að menn geri grein fyrir því hér í ræðum, einhverjir þingmenn stjórnarliðsins, hvernig þeir réttlæta það að fara út í þéttbýlisskattlagningu til að hlífa stóriðjunni.