144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[17:45]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur spurningarnar. Varðandi einstaka staði og skref þá er, eins og ég sagði áðan, ríkur vilji til þess hjá öllum — ég heyri ekki annað, ég hef ekki hitt þann mann á þingi sem ekki er sammála því — að jafna raforkuverð hvar sem er á landinu. Hvort sem við gerum það svona eða hinsegin, það er ekki alveg klárt, ég get alveg verið sammála því. Ég hefði viljað gera þetta í einu skrefi. En mín reynsla af því sem gerist hér inni er bara sú að það gerist ekki alveg þannig. Hér gerast margir hlutir allt of hægt.

Vel má deila um það hvers vegna við skattleggjum stórfyrirtækin ekki. Ég get svo sem alveg tekið undir það að það væri allt í lagi. En mitt mat er það að ef þessi stórfyrirtæki væru ekki til staðar, ef þessi stóriðja væri ekki í landinu, væri dreifingin miklu dýrari. Við njótum góðs af stóriðjunni með flutningskerfi okkar, raforkuflutningskerfi, þannig að í raun er verið að greiða þetta niður þar. Þar fyrir utan erum við nú að ræða hér og semja ýmiss konar ívilnunarfrumvörp um stórfyrirtæki aðallega, veita þeim skattafslátt og ýmsar ívilnanir til að skapa störf. Er það þá alveg í takt að fara að skattleggja þau eitthvað sérstaklega? En auðvitað má alveg deila um það hvort þau eigi að vera með í þessu eða ekki.