144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[17:50]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við viljum láta stórfyrirtækin borga hærra raforkuverð eða skatt, hvort sem við köllum það, þá veit hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir jafn vel og ég að mikil eftirspurn er eftir rafmagni í dag. Það eru tækifæri til að hækka rafmagnsverð til stóriðju. Hvernig gerum við það helst? Við höfum setið fundi með þessum aðilum og við gerum okkur grein fyrir því og þeir hafa útskýrt það að við hverja nýja raforkusamninga sem þeir gera hækkar verðið.

Nú er lag að semja við nýja aðila um nýjar stóriðjur, um hærra verð; þegar þau fyrirtæki sem við erum með í dag, sem eru með bundna samninga, langtímasamninga sem fara að renna út, orkuverðssamninga semja upp á nýtt þá leiðir það til þess að það verð mun hækka. (Gripið fram í: Samfélagsskyldurnar.) Samfélagsskyldurnar eru hjá þessum fyrirtækjum eins og hjá öllum fyrirtækjum, hvort sem þau eru lítil eða stór. Þannig að (Gripið fram í.) — já, já, og hvort það eru þessir peningar eða einhverjir aðrir.

Ég vil bara treysta því að þó það sé ekki alveg skýrt núna hvernig þetta verður gert að þá munum við gera það.