144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

515. mál
[16:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil benda á að við erum að ræða hér tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á X. viðauka um almenna þjónustu í heilbrigðisþjónustu. Hér er hv. þingmaður farinn út um víðan völl, farinn að tala um fundi í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun o.s.frv., þannig að ég held að ég sé nú ekki að taka á því öllu. Hins vegar held ég, og ég er að benda hv. þingmönnum á það, að þeir þurfi að skoða miklu nánar þær tilskipanir sem koma frá Evrópusambandinu. Þær eru ekki endilega allar jafn góðar og menn kynnu að halda, menn halda kannski að búið sé að fara mjög vandlega yfir þetta mál hjá Evrópusambandinu.

Þegar menn tala um að Íslendingar hafi ekki aðgang að þeim ákvörðunum þá er það þannig að jafnvel stærri þjóðir eins og Finnar og Danir og fleiri Norðurlandaþjóðir kvarta undan því að þær hafi engin áhrif á ákvarðanir vegna þess að þær séu í raun teknar af þremur stærstu ríkjunum ef ekki bara einu. Maður sá það þegar vandræðin voru í skuldakrísunni hjá bönkunum, þá voru það eiginlega Frakkland og Þýskaland sem tóku ákvarðanir um hvað ætti að gerast innan evrusvæðisins. Þannig að jafnvel smærri ríki, sem eru þó mjög stór á okkar mælikvarða, Ítalía og Spánn og önnur, voru að kvarta undan því að þau væru ekki þátttakendur í ákvörðunum. Þannig að ég hugsa nú að Ísland hefði nú ekkert voðalega stórt vægi í því að taka ákvarðanir um tilskipanir þó að það væri orðið hluti af Evrópusambandinu.

En við erum sem sagt að ræða tillögu til þingsályktunar um innleiðingu á tilskipun EES-nefndarinnar og ég var bara að skora á hv. þingmenn að skoða þær tilskipanir nánar í staðinn fyrir að umræðan sé svona lítil eins og hér hefur orðið raunin.