144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

396. mál
[19:40]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, hv. þingmaður misskildi það að dæmin væru mýmörg á þessu kjörtímabili, dæmin eru mýmörg í gegnum söguna, en ég held að það hafi kannski verið til gamans gert að misskilja það.

Varðandi seinni spurninguna þá er kerfið þannig úr garði gert að það þarf meiri hlutann til að ráðherra sé ákærður, skipaður saksóknari, mig minnir að ferlið sé þannig, og farin landsdómsleiðin, enda er þetta er hófstillt tillaga. Það er ekkert auðvelt að fara þessa leið en með þessari breytingu verður skýrt það sem er nú þegar í lögum í raun og veru, að það varði ráðherraábyrgð ef ráðherra af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi gengur í bága við lög. Ein þeirra laga eru þingsköp sem kveða á um upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart Alþingi sem er náttúrlega grundvallaratriði til að Alþingi geti sinnt því stjórnarskrárbundna hlutverki sínu að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Þá verður þetta skýrt og lögspekingar hafa kallað eftir því að refsiábyrgðin sé skýr, þetta eigi að vera skýrt. Og jafnframt er bætt við mjög eðlilegum þætti að það sé ekki bara þannig að þegar þingið sinnir eftirlitshlutverki sínu þurfi ráðherrann bara að láta þær upplýsingar í té sem hann hefur aðgang að. Hann getur sem sagt farið leynt með það sem hann hefur ekki aðgang að. Það sé þá skýrt að það sé líka refsivert að gefa rangar og villandi upplýsingar. Út á það gengur frumvarpið.

Ég legg aftur til að frumvarpið gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og við samþykkjum það, gerum þetta skýrt í eitt skipti fyrir öll.