144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

kjaraviðræðurnar fram undan.

[13:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin, mér finnst þetta mjög mikilvæg skilaboð inn í kjaraviðræðurnar sem eru fram undan.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að launadreifingin sé jafnari núna en hún var 2006, sem er fagnaðarefni, þá erum við eigi að síður með allt of stóran hóp fólks undir lágtekjumörkum, fátæks fólks. Það hlýtur að vera eitthvað sem við getum sameinast um, með aðgerðum okkar á þessum stað, á Alþingi, að beita okkur fyrir, að það fari fækkandi í þeim hópi, helst að við þurfum ekki að horfa upp á fátækt í íslensku samfélagi þar sem miklir fjármunir eru til. Það snýst um það hvernig við dreifum þeim fjármunum þannig að ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin.

Ég lít svo á að við séum sammála um þau grundvallaratriði að til að hækka lægstu laun sérstaklega sé góður möguleiki að skoða krónutöluhækkanir. Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra um að þar eigum við að horfa á eðlilega dagvinnu en ekki að fólk sé að bæta við sig með stöðugri aukavinnu.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvernig sér hann fyrir sér að hæstv. ríkisstjórn geti beitt sér til að kjaraviðræður sem eru fram undan gangi sem greiðast?