144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

afnám hafta.

[13:48]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér bregður svolítið í brún að heyra viðhorf hv. þingmanns til þessa verkefnis, sem er aflétting hafta, fyrst og fremst afstöðu hv. þingmanns til þessara margumræddu kröfuhafa bankanna. Hv. þingmaður virðist bera hag þeirra mjög fyrir brjósti og óttast að stjórnvöld muni koma fram á þann hátt að þeir verði ósáttir eftir.

Virðulegur forseti. Þetta er í raun mjög einfalt mál eins og margoft hefur verið farið yfir í umræðu á þinginu og annars staðar. Til þess að hægt verði að aflétta fjármagnshöftum þarf að skapast svigrúm sem kemur í veg fyrir að afléttingin ógni efnahagslegum stöðugleika á Íslandi. Þetta var, að ég taldi, orðið óumdeilt. Seðlabankastjóri hefur farið yfir þetta margoft, fræðimenn á sviði hagfræði hafa farið yfir þetta. Ég hélt að það væri orðið algjörlega óumdeilt að samhliða afnámi hafta þyrfti að skapa efnahagslegt svigrúm þannig að ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að bregðast við þessari nálgun hv. þingmanns, að hann líti á það á einhvern hátt sem ókost eða að verið sé að svína á mönnum ef opnuð verður greið leið hér út með fjármagn. Ég er bara svo undrandi að heyra þessa nálgun að ég þarf aðeins að jafna mig áður en ég held áfram að svara.