144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:59]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er stundum sagt að sumir séu heilagari en aðrir, ég veit ekki hvort það eigi við í þessu sambandi.

Það sem komið hefur líka fram í umfjölluninni er að efast er um sjálfstæði Orkustofnunar til að staðfesta kerfisáætlun miðað við þessa þriðju tilskipun raforkulaga sem við förum að taka upp mjög fljótlega, eins og ég skil það, því að tekið er sérstaklega fram að það eigi að vera óháður og sjálfstæður aðili. Varla getur Orkustofnun í þessu tilfelli með öll þessi mál undir sér talist vera sá óháði aðili. Það væri ekki gott ef við afgreiddum lög um kerfisáætlun og síðan kæmi í ljós, ef við tökum upp þessa tilskipun, að lögin stæðust ekki þá tilskipun, að það stangaðist á og við þyrftum að draga til baka og gera breytingar. Þá held ég að betra væri að bíða og vinna þetta í takt við það sem við erum að fara að taka upp varðandi EES-reglur og þennan þriðja raforkupakka.

Einnig hefur komið fram mikil gagnrýni frá fleiri aðilum á þessi mál sem ég nefndi ekki áðan, t.d. Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands. Þau benda á að kerfisáætlun Landsnets verði ráðandi í skipulagi sveitarfélaga. Það er kannski það sem hv. þingmaður kom inn á áðan, hverjir verða ofan á þegar svona ákvarðanir eru teknar, hvort sveitarfélögum sé stillt alveg upp við vegg. Einnig er það gagnrýnt að sveitarfélögin fái allt of lítinn tíma til að bregðast við. Ég tel að þetta (Forseti hringir.) þurfi miklu nánari skoðunar við.