144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, ég tek undir það og kom inn á það í máli mínu áðan að mér fyndist það vera eitt af því sem ætti að vera hægt að taka til viðmiðunar og hafa til hliðsjónar varðandi samanburð á kerfisáætlun og samgönguáætlun og þingsályktunartillögu varðandi tillögur í rammaáætlun; þetta eru mál sem með þingsályktun koma inn til þingsins og til umfjöllunar. Mér þætti eðlilegt að kerfisáætlun kæmi til Alþingis til umfjöllunar og meiri möguleikar væru á aðkomu almennings að þeim málum sem er ekki eins og þetta lítur út í dag. Kerfisáætlun, ég varpaði þeirri spurningu oftar en ekki fram í atvinnuveganefnd hvort hægt væri að kæra hluta kerfisáætlunar. Við vitum að það hlýtur að vera ansi þungt í vöfum ef eitthvert sveitarfélag er mjög ósátt við hvernig flutningsmannvirki eru, línulagnir í sveitarfélaginu á viðkvæmum svæðum, og vilja þá taka þann kafla upp og kæra. Þurfa menn þá að kæra alla kerfisáætlunina? Er hægt að taka einhver ákveðin svæði og kæra?

Mér finnst þetta mjög óljóst. Þetta var eitt af því sem var mikið gagnrýnt bæði af þeim umsagnaraðilum sem komu fyrir nefndina, eins og til dæmis fulltrúum frá Akureyrarbæ, og í fleiri umsögnum hefur komið fram gagnrýni á þetta, hvernig hægt er að kæra hluta af kerfisáætlun og þurfa ekki að hafa allt undir ef menn ætla að leggja fram kæru.