144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:14]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hluti af því að ég skrifa undir þetta nefndarálit, þó að ég hafi fyrirvara, er akkúrat þessi grein sem þarna er vitnað til og er í raforkulögum. Þetta frumvarp byggist á breytingum á raforkulögunum nr. 65 frá 2003, og er sett þar inn 9. gr. með a, b, c og d. Þar með tel ég að sú kæruleið sem ég var hér að lesa upp sé virkjuð, um þessar greinar eins og annað í raforkulögunum. En það er allt í lagi vegna þess að ég er unnandi þess að lagatextar og greinargerðir og annað sé sem skýrast þannig að sem minnstum deilum valdi og að verk okkar eigi ekki að vera sífellt tilefni fyrir dómstóla til að velta því sér hvað Alþingi hafi verið að hugsa, hvað menn sögðu eða sögðu ekki.

Hér hefur verið talað um að frumvarpið og þetta mál komi til nefndarinnar aftur milli umræðna, það er sjálfsagt mál að fara yfir það sem hér hefur komið fram. Eins og ég sagði áðan koma miklu fleiri efasemdir og athugasemdir fram við 2. umr. en voru við 1. umr., sem er dálítið sérstakt. En ég skal ganga úr skugga um að það sem hér er, sem er jafnframt lögskýringartexti sem settur er inn í nefndarálitið um þessa kerfisáætlun — að kæruleiðin virkist. Ef betur þarf að hnykkja á því í greinargerð þá er það sjálfsagt að mínu mati. Það verður alltaf að vera grundvallaratriði að þessi úrskurður Orkustofnunar sé kæranlegur eins og þarna kemur fram og geti endað hjá dómstólum úr því að menn vilja hafa þá leið.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan um sérstaka úrskurðarnefnd, að þetta sé ekki dómstólamál sem slíkt. Það má þá hnykkja á því ef það er aðalatriðið. En ég las það þannig — þegar þetta kom inn í greinargerðina, að þetta sé fullkomin leið til varnar, hér er talað um allan samráðsferilinn (Forseti hringir.) og allt það, að einstakir aðilar geti kært og einstaka hluti — að þetta væri fullnægjandi. Mér fannst það, virðulegi forseti.