144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:32]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Nú getum við kannski gefið okkur að í landsskipulagsstefnu, þegar hún lítur dagsins ljós, sé miðhálendið greint þannig að þar muni ekki verða um línulögn að ræða eins og Sprengisandslínu, niðurstaða í landsskipulagi verði að þar fari ekki lína yfir. Ef ekkert samspil er á milli og kerfisáætlunin er sér á báti og tekur ekkert mið af landsskipulagi þá spyr maður sig hvort hafi meira vægi; kerfisáætlun eða landsskipulag, ef kerfisáætlun verður samþykkt þannig að flutningsfyrirtæki leggi línu yfir Sprengisand og Orkustofnun samþykki það. Ef það stangast á við landsskipulag, hvar erum við þá stödd? Hvaða lög ganga þá lengra í þeim efnum?

Aðeins varðandi umfjöllun Alþingis um þessi mál. Það virðist vera að ákvarðanir í þessum málum séu teknar alfarið úr höndum Alþingis ef kerfisáætlun eins og hún liggur fyrir verður að veruleika. Nú er samgönguáætlun, sem er til fjögurra ára og svo tólf ára, ekki óáþekk, en hún er lögð fyrir Alþingi með þingsályktunartillögu og þar er aðkoma lýðræðislega kjörinna fulltrúa til að hafa áhrif og fjalla um áætlunina. Telur hv. þingmaður ekki rétt að Alþingi hafi einhverja aðkomu að þessu máli og þetta sé ekki fjarlægt úr höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa og sett í hendur stofnana á vegum ríkisins og embættismanna eins og manni virðist vera, vald sveitarfélaga verulega skert í þessum efnum og við færum málin frá lýðræðislegri ákvörðunartöku með þessum hætti?