144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:14]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns áðan. Þar gat hann þess að hann væri ánægður með að sjá þá tillögu okkar að horft yrði til samgönguáætlunar við mótun kerfisáætlunar. Hann sagði, ef ég man rétt, að það væri nýtt fyrir honum — ég sé að stjórnarandstöðuþingmenn kinka kolli — en hann hafi fengið að vita þetta í morgun. Þetta stendur þó mjög skýrum orðum í umsögn Skipulagsstofnunar. Það hefur þá væntanlega farið fram hjá hv. þingmanni sem ég held að teljist gagnrýnisverð vinnubrögð. Við eigum að lesa þau álit.

Að sjálfsögðu voru haldnir fundir eftir áramót. Það liggur í hlutarins eðli annars hefði væntanlega ekki verið hægt að samþykkja (Gripið fram í.) frumvarpið. (KLM: 16. febrúar.) Eins og gengur og þingmaðurinn benti réttilega á þá (KLM: Fyrir viku.) hefur það nú verið þannig að stundum á eftir að (Forseti hringir.) samþykkja fundargerðir.

En ég vil kannski (Forseti hringir.) beina því til hv. þingmanns að hann sé líka í góðu samráði við félaga sína í umhverfis- (Forseti hringir.) og samgöngunefnd sem fylgdust mjög vel með framgangi málsins.