144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:21]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að flutningafyrirtækin þurfi að leggja fram þriggja ára framkvæmdaáætlun og tíu ára áætlun og að sveitarfélögin þurfi innan fjögurra ára að vera búin að gera ráð fyrir þessari framkvæmdaáætlun, þeim kostum sem koma þar fram varðandi flutningskerfið, og setja það inn á sitt skipulag. Nú hefur verið spurt að því, varðandi hugsanlega bótaábyrgð sem gæti skapast, skaðabótaábyrgð. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur spurt þessara spurninga: Hver ber þá skaðabótaábyrgð vegna skipulagsbreytinga? Mér finnst það vera góð og gild spurning sem þarf að liggja fyrir. Við þekkjum það varðandi rammaáætlun að þá gengur hún vissulega inn á skipulagsvald sveitarfélaga en þar er gert ráð fyrir að sveitarfélögin hafi svigrúm til lengri tíma, allt að tíu ár, til að setja viðkomandi kost inn á skipulag því að það getur breyst. En þarna er þetta ansi þröngur tími að setja þetta inn á, hvað sem verður síðan um framkvæmdina og flutningsmannvirkið. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess.

Það hefur verið gagnrýnt að kerfisáætlun þurfi ekki að fara í neitt umhverfismat. Við vitum að það liggur fyrir að umhverfismeta þarf áætlanir, ýmsar áætlanir, eins og samgönguáætlun og aðrar áætlanir í dag. Út af hverju ætti að undanþiggja kerfisáætlun þessu umhverfismati áætlana sem hefur auðvitað gífurleg áhrif á landslag og allt sem því fylgir?