144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

eyðing upplýsinga úr gagnagrunni lögreglunnar.

[15:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að bera þessa spurningu upp. Hluti af þeim atriðum sem hún nefnir eru þess eðlis að ég þarf svigrúm til að kanna málið, þá sérstaklega þau atriði sem hún nefnir um aðila sem eru skráðir; nánari útlistun hennar í fyrirspurn er þess eðlis að ég er ekki með það á takteinum. Ég þarf að fá tækifæri til þess að svara því og kannski væri betra fyrir mig að geta gert það ef lögð yrði fram um það sérstök fyrirspurn og að sjálfsögðu mun ég afla þeirra upplýsinga sem óskað er eftir í því.

Ég skil hv. þingmann þannig að hún sé líka að velta fyrir sér þessum bakgrunnsupplýsingum og hvað menn hafa verið að vinna í því sambandi. Eins og ég hef sagt úr þessum stól og opinberlega þá er ég að setja sérstakt auga á þessi mál í heild sinni, bæði hvað varðar heimildir lögreglu og síðan réttindi borgaranna og að vissu leyti má segja að þetta tali svolítið inn í það.

Við erum með í undirbúningi í innanríkisráðuneytinu frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir og siglingavernd þar sem eru ákvæði um bakgrunnsathuganir. Þetta er enn í vinnslu þannig að þetta er ekki endanlega komið til mín en þar er verið að bregðast við hlutum sem mönnum þykir þurfa að vera með skýrari hætti en nú er í lögum. Og ég vil segja það við hv. þingmann að ég tel mjög brýnt að við förum mjög rækilega yfir þessar reglur, að þær séu eins vel úr garði gerðar og hægt er þannig að réttindi séu að fullu tryggð.