144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

eyðing upplýsinga úr gagnagrunni lögreglunnar.

[15:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir svarið. Mig langaði að benda á að ef það er eitthvert land sem gott væri að miða sig við varðandi öryggi fyrir borgarana, í tengslum við það hvernig gagnagrunnar eru settir upp, þá er það Þýskaland. Það er ágætt að skoða hvernig Þjóðverjar haga sínum málum.

En ég hef áhyggjur af því hvernig skráð er í málaskrá. Segjum að ég hringi í lögregluna og segi að ég hafi orðið vitni að bílslysi, þá er ég komin inn á málaskrána. Segjum að ég hafi hringt út af einhverju öðru, þá er ég komin með tvö mál inn á málaskrá. Segjum sem svo að einhver ættingi minn eða vinur sé glæpamaður, þá er ég líka tengd við hann ef við höfum verið á sama stað.

Því er mjög ábótavant hvernig skráð er inn í þetta kerfi og mjög mikilvægt að gerðar séu nákvæmar starfslýsingar. Jafnframt er nauðsynlegt að það sé mjög skýrt hver fær aðgang og hvernig (Forseti hringir.) upplýsingar eru veittar úr málaskránni til annarra aðila eins og t.d. atvinnurekenda.