144. löggjafarþing — 75. fundur,  2. mars 2015.

ljósleiðarar.

520. mál
[17:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa fyrirspurn. Það gerist ekki á hverjum degi að maður fagnar orðum tveggja hv. framsóknarmanna sem ræða málin í röð, en ég ætla að gera það í þetta skipti, þakka fyrir þau orð sem á undan voru mælt.

Hvað varðar internettengingar á landsbyggðinni sérstaklega þá er það rétt sem oft er nefnt hér að þetta er gríðarlega mikið atvinnumál. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að þetta er miklu víðtækara en það. Þetta varðar menntun, þetta varðar samskipti við ástvini og vini, þetta varðar almenna upplýsingaleit, einfalda hluti í lífinu eins og að finna uppskriftir á You Tube. Þetta varðar meira og minna allt sem hægt er að gera í nútímasamfélagi í sambandi við upplýsingar og hann stækkar sífellt sá hluti mannlífs sem tilheyrir þessu fyrirbæri, internetinu. Mér finnst mikilvægt að halda þessu til haga og einnig því að það er mikilvægt að þessar tengingar séu góðar og stöðugar vegna þess að ýmis lykilþjónusta á borð við myndsíma gerir gæfumuninn þegar kemur að því hvort hægt sé að vinna ákveðna fjarvinnu yfir höfuð, taka þátt í öllu fjarnámi o.s.frv. Ég fagna þessari umræðu.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.