144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Reykjavíkurborg kynnti í gær afar áhugavert tilraunaverkefni sem ég tel að við hér á Alþingi eigum að fylgjast vel með. Það fjallar um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðinga. Þegar ég segi að „við hér á Alþingi“ ættum að fylgjast vel með því er ég ekki að tala í hinu þrönga samhengi um okkur á Alþingi sem vinnustað heldur hefur það mun víðari skírskotun, þ.e. þau samfélagslegu áhrif sem styttri vinnutími kann að hafa. Markmiðið með tilraunaverkefninu er að kanna áhrif styttri vinnutíma á vellíðan og starfsanda starfsmanna sem og áhrifin sem það kann að hafa á starfsstaðina sem valdir voru fyrir tilraunaverkefnið, bæði með tilliti til gæða þjónustunnar sem þar er veitt sem og hagkvæmni. Íslendingar vinna að jafnaði nokkrum klukkustundum lengur en aðrir Norðurlandabúar í hverri viku og það er vel þekkt að fjölskylduvænt samfélag og langur vinnutími fara ekki saman, auk þess sem sýnt hefur verið fram á að starfsánægja og afköst starfsfólks aukast hlutfallslega með styttri vinnutíma. Styttri vinnutími getur því aukið framleiðni og þannig verið öllum til hagsbóta. Talsvert hefur verið talað um styttingu vinnuvikunnar á undanförnum árum en lítið hefur gerst í þeim málum. Það þarf talsverðan kjark til að prufa að láta starfsmenn vinna færri klukkustundir en fá sömu laun. Reykjavíkurborg sýnir nú þann kjark að prufa í þeirri viðleitni að koma á fjölskylduvænna samfélagi og tryggja aukinn jöfnuð og lífsgæði og það er það sem ég tel að við hér á Alþingi eigum að fylgjast vel með og sjá hvort við getum lært eitthvað af þessu tilraunaverkefni og þá jafnvel tekið upp í vinnu okkar hér.