144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

losun hafta.

[10:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég held að það sé mikilvægt að við blöndum ekki tveimur ólíkum hlutum saman. Það er annars vegar almenna umræðan um það hvernig við ætlum að haga peningamálastjórnun í landinu, hvaða þjóðhagsvarúðartæki við hyggjumst taka upp til að tryggja betur stöðugleika eftir að höft hafa verið afnumin og við hyggjumst styðja við, til þess meðal annars að sýna fram á að við höfum lært af þeim veikleikum sem raungerðust hér í hruninu. Hins vegar er síðan umræðan um það nákvæmlega hvernig stjórnvöld hyggjast taka á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir og birtist okkur í fyrsta lagi í aflandskrónuvandanum, í öðru lagi hættunni af skyndilegu gengishruni vegna uppgjörs á slitabúum hinna föllnu banka. Við skulum bara horfast í augu við það. Það er hægt að taka á því með ýmsum hætti og vinnan undanfarin ár hefur falist í því að greina umfang vandans og eðli en ekkert síður að gera upp á milli þeirra valkosta sem við stöndum frammi fyrir. Það er staðreynd sem forsætisráðherra hefur bent á að það kann að vera að ekki þjóni hagsmunum okkar að tala út og suður um alla þá ólíku valkosti og betur fari á því að unnið sé í rólegheitum í stjórnkerfinu og eftir atvikum í samráði við aðra stjórnmálaflokka í samráðsnefndinni þar sem menn velta vöngum yfir því hvernig við gætum best sameiginlegra hagsmuna okkar við uppgjör á þeim valkostum sem við höfum. Þetta má að sínu leytinu líka heimfærast upp á aðgerðir sem horfa til þriðja hluta vandans sem er innlendi þrýstingurinn.

Af hverju er ekki hægt að taka mjög opinbera umræðu um allt þetta? Vegna þess að sérhvert orð sem sagt er í þeirri umræðu getur til dæmis haft áhrif á markaðina, á skráð skuldabréf o.s.frv., og getur breytt hegðun manna. Menn verða að fara varlega í að úttala sig um (Forseti hringir.) allar sínar hugsanir og þá valkosti sem eru til staðar, en um hitt sem snýr að peningamálastjórninni og því hvernig við ætlum að viðhalda stöðugleikanum, tek ég undir með þingmanninum.