144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

efling veikra byggða.

[11:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fyrir að hefja umræðu um brothættar byggðir og þá stöðu sem er í byggðamálum almennt. Það var athyglisvert að sjá að þegar auglýst var eftir umsóknum um að taka þátt í þessu verkefni á síðastliðnu hausti bárust tíu umsóknir. Ég held að það sé rétt sem nú þegar hefur komið fram í umræðunni, bæði hjá málshefjanda og hæstv. ráðherra, að það skiptir gríðarlegu máli að við tökum sameiginlega á þessu verkefni. Það þarf að gefa skýr skilaboð, eins og hv. þingmaður orðaði það, og við þurfum að hafa það í huga að gefa jöfn tækifæri og skapa jafnræði á milli svæða. Ef við vöndum okkur vel er ekki ágreiningur um þessi mál, það er bara spurningin um að við einhendum okkur í þetta. Samfylkingin skilaði þingsályktunartillögu í byrjun þessa þings þar sem fjallað var um byggðamálin og að byggja ætti á sóknaráætlunum, en það er það sama og ráðherra leggur til nú. Talað er um samgöngurnar sem eru forsenda þess að jöfn aðstaða sé á svæðunum, vegaframkvæmdir og almenningssamgöngur. Talað er um að veiðileyfagjöldin renni að hluta til til sjávarbyggða og byggðakvóti í brothættar byggðir verði aukinn. Orðið getur ágreiningur um hinn félagslega hluta, hversu stór hann á að vera. Talað er um rammalöggjöf um ívilnandi samninga í fjárfestingum, m.a. í nýsköpun og þróun úti á landsbyggðinni. Talað er um jöfnun húshitunarkostnaðar og dreifingu á rafmagni. Talað er um hlutdeild í tekjum af ferðamönnum til þess að nota til uppbyggingar á öllum þessum svæðum. Talað er um rafmagnsöryggi, þ.e. dreifikerfi raforku. Talað er um húsnæðismálin, þar með leiguhúsnæði, fjarskipti og háhraðanettengingarnar, jöfnun á flutningskostnaði og aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu. Getum við ekki sameinast um það og farið í þá vinnu? Það þarf pening til þess og það þarf forgangsröðun til að breyta þessu.

Við getum bætt við hér að þá mega menn heldur ekki fækka nemendum í framhaldsskólum og veikja byggðirnar enn frekar. Við getum líka náð þessum svæðistengingum á veiðiheimildum í gegnum kvótaþing. Ég styð þá hugmynd að menn skoði það vegna þess að það er óþolandi að hér sé hægt að grafa undan atvinnulífinu með einni ákvörðun varðandi kvóta.

Við í Samfylkingunni erum reiðubúin að styðja ríkisstjórnina til að verja byggðir og bæta skilyrði til búsetu, jafna stöðu (Forseti hringir.) byggðanna, en við viljum almennar leikreglur (Forseti hringir.) sem gefa tækifæri til að breyta vörn (Forseti hringir.) í sókn en ekki ölmusuaðgerðir (Forseti hringir.) fyrir landsbyggðina.