144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

efling veikra byggða.

[11:21]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Á síðasta kjörtímabili efndi þáverandi ríkisstjórn til víðtæks samráðs undir forustu forsætisráðuneytisins um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar. Markmiðið með því samráði var að kalla fram sameiginlega framtíðarsýn og samþætta áætlanir í samgöngumálum, fjarskiptamálum, ferðamálum og byggðaáætlunum, auk áætlana um eflingu sveitarstjórnarstigsins og ýmissa vaxtarsamninga.

Verkefnið studdi þjóðfund Mauraþúfunnar í Laugardalshöll þar sem 1231 þátttakandi af öllu landinu tók þátt í að draga fram gildi, þemu og framtíðarsýn þjóðarinnar. Þjóðfundurinn var fyrirmynd átta þjóðfunda sem haldnir voru á vegum 20/20 sóknaráætlunar um land allt. Hluti af mótun framtíðarsýnarinnar var að móta atvinnustefnu til framtíðar. Í því skyni var sérstakur verkefnishópur stofnaður, skipaður fulltrúum tilnefndum af aðilum stöðugleikasáttmálans, fulltrúum allra þingflokka og formönnum Vísinda- og tækniráðs. Eitt af meginmarkmiðum þessa samráðsverkefnis var að Ísland skipaði sér í hóp tíu samkeppnishæfustu þjóða heimsins árið 2020.

Eins og fram kemur á vef forsætisráðuneytisins voru vinnubrögð og verklag sóknaráætlunar 20/20 sótt til áðurnefnds þjóðfundar. Gildi hans, heiðarleiki, réttlæti og virðing, voru lögð til grundvallar öllu starfi á vegum verkefnisins þar sem lýðræðisleg nálgun á verkefnið skipti öllu máli. Hver landshluti, hver ríkisstofnun, hvert sveitarfélag, hver vinnustaður og hver fjölskylda og einstaklingur býr yfir sínum sóknarfærum og markmiðið með sóknaráætlun var að nálgast þessi sóknarfæri, orða þau og samþætta og loks nýta þau til að blása Íslandi vind í seglin til framtíðar. Á vegum verkefnisins var því ráðist í mjög víðtækt samráð og óhætt að segja að vel á annað þúsund manns hafi veitt verkefninu lið á einn eða annan hátt með því að gefa vinnu sína og tíma.

Þetta er hugsanlega metnaðarfyllsta sóknar- og byggðaáætlun sem ráðist hefur verið í á Íslandi, áætlun sem miðaði að því að styrkja og efla alla atvinnu- og innviðauppbyggingu í landinu. Eitt af fyrstu verkum núverandi ríkisstjórnar var að kasta þessari áætlun og öllu þessu mikla starfi fyrir róða.

Og ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum?