144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

efling veikra byggða.

[11:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að umræðan hér hefur verið góð og málefnaleg. Það hefur komið í ljós að allir eru meira og minna sammála um að það er mikilvægt að taka með festu á þessum byggðamálum. Ég held líka að allir geti verið sammála um að þrátt fyrir stór orð fortíðar hafi allt of lítið verið gert. Núna erum við að reyna að taka skýrt á þessu. Ég er ánægður með að það skuli vera mikill samhljómur þingmanna í ólíkum flokkum um það.

Fólksflótti, já það er rétt, en þrátt fyrir það hafa aldrei búið fleiri á landsbyggðinni en í dag. Íbúaþróunin innan ólíkra landsbyggða hefur aftur á móti verið umtalsverð. Ég býst ekki við því að nokkur þingmaður sé að tala um að festa í sessi byggðaþróun eins og hún leit út 1950 eða 1980 eða 2010. Einu sinni var Eyrarbakki höfuðstaður Íslands og löggjafarsamkoman á Þingvöllum. Margt breytist og mun halda áfram að breytast.

Ég held að fjórar höfuðatvinnugreinar komi til með að nýtast best í þeirri viðleitni okkar að snúa þessu við, í sjávarbyggðunum augljóslega sjávarútvegurinn. Í landbúnaðarhéruðunum er augljóslega landbúnaðurinn og við þurfum að nýta þessar atvinnugreinar að hluta. Þær geta ekki borið þetta einar, það þarf að gera fleira. Ferðaþjónustan kemur inn á öllum þessum stöðum og svo er opinber þjónusta sem er stór liður í öllum byggðarlögum landsins. Þessi fjögur atriði þurfa að gera það. Við þurfum að tryggja grunnþjónustuna eins og núverandi ríkisstjórn er að gera með stórfelldu átaki í ljósleiðaravæðingunni. Það kom auðvitað fram á íbúafundunum, af því að hv. þm. Pírata, Ásta Helgadóttir, spurði um það, að ein krafan er að fólk hafi almennilegar nettengingar. Þær eru lykillinn að framtíðinni. Við vitum það og þess vegna er ríkisstjórnin að tryggja það. Ef við getum hins vegar ekki tryggt grunnþjónustuna er eðlilegt eins og kom fram í byggðaáætlun (Forseti hringir.) sem samþykkt var í fyrra að við skoðum skattkerfið. Það er líka augljóst ef við ætlum að gera eitthvað meira en að tala reglulega um þetta með fögrum orðum á Alþingi.