144. löggjafarþing — 78. fundur,  5. mars 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[11:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræddum þetta mál hér nokkuð í fyrradag og það ekki að ástæðulausu. Það kemur í ljós að það frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra bar inn í þingið er algerlega vanbúið. Í millitíðinni, meðan enn þá stendur á 1. umr., hafa fulltrúar fjármálaráðuneytisins komið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd þingsins og gert þar grein fyrir því að ráðuneytið óskaði eftir því að gera veigamiklar efnisbreytingar á málinu. Ég verð að segja að mér finnst athugunarefni fyrir þingið að stjórnarfrumvarp um mikilvægt atriði á fjármálamarkaði eins og þetta komi inn til 1. umr. með þeim hætti að ráðuneytið sjálft sem útbúið hefur málið og undirbúið til þings komi meðan málið er enn þá í 1. umr. til að leita eftir því að gerðar séu efnisbreytingar á því þess efnis að einvörðungu þeim sem hafa tekjur í erlendri mynt sé heimilt að taka lán sem er það atriði sem við ræddum verulega við upphaf 1. umr. Þegar svona er staðið að stjórnarfrumvarpi veltir maður auðvitað fyrir sér hvað það gagni að taka málið í 1. umr. ef það er ekki fullbúið af hálfu ráðherrans. Ég held þess vegna að ég láti hér nótt sem nemur og bíði þess að efnahags- og viðskiptanefnd hafi fjallað um málið og gert þær breytingar á því sem augljóslega er nauðsynlegt, og meira að segja ósk ráðuneytisins um, og við ræðum efni málsins þegar það liggur fyrir sæmilega unnið hér til 2. umr. Ég tel þessi vinnubrögð til vansa.