144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef áhuga á því að eiga orðastað við formann fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, vegna frétta sem fjölmiðlum hefur tekist að draga út úr ráðuneytinu undanfarna daga um alveg ótrúlegan fjáraustur ráðherranna í áróður fyrir sjálfa sig af opinberu skattfé. Þannig er það ljóst að innanríkisráðuneytið hefur greitt ráðgjafarfyrirtækinu Argus tæplega 2,4 millj. kr. fyrir fjölmiðlaráðgjöf vegna lekamálsins. Innanríkisráðherra hefur ábyrgst 2,4 millj. kr. útgjöld af skattfé til að verja sjálfan sig í lekamálinu í gegnum innanríkisráðuneytið. Í viðbót 1 millj. kr. í lögfræðiráðgjöf til lögmannsstofunnar Lex. Það vantaði þó ekki að vísað væri mikið í hina innri lögfræðiráðgjöf ráðuneytisins í því máli.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sem fer auðvitað með opinbert fé, hefur eytt tæpum 900 þús. kr. — í hvað? Í ráðgjöf vegna lekamálsins að uppistöðu til og að einhverju leyti vegna klúðurs lögreglunnar sjálfrar á því að leka persónugreinanlegum upplýsingum þegar búsáhaldabyltingarskýrslan var birt. Ekki tekur betra við því að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur eytt tæplega 2 millj. kr. — þetta eru allt tölur án virðisaukaskatts — í hvað? Í hvað hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið keypt sér ráðgjöf utan úr bæ fyrir 2 millj. kr.? Jú, vegna kvótafrumvarpsins sem ráðherra hefur nú ákveðið að verði ekki flutt. Þeim peningum er vel varið. Og í ráðgjöf vegna náttúrupassans (Gripið fram í.) upp á hátt í 1.300 þús. kr. sem var andvana fæddur og öllum var ljóst að yrði aldrei afgreiddur. Samt er opinberu fé sóað með þessum hætti.

Ég vil spyrja formann fjárlaganefndar, sem stundum lætur hvína í sér varðandi ábyrga fjármálastjórnun: Telur hún þetta réttlætanlega meðferð á opinberu fé? Hvaða fjárheimildir nota ráðuneytin í einkaáróður fyrir ráðherrana? (Forseti hringir.) Er það sérstakur fjárlagaliður? Og hvað segir hv. þingmaður meðal annars sem fulltrúi í hagræðingarhópnum um þessi útgjöld?