144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við greiddum hér atkvæði 16. júlí 2009 um þingsályktunartillögu um að hefja aðildarferli við Evrópusambandið. Sú ríkisstjórn sem þá sat fékk það verkefni og hún framfylgdi því. Þess vegna vil ég taka það fram hér og nú að vegna þess að ríkisstjórn ákvað að fylgja eftir ályktun Alþingis tel ég enn að sú ályktun sé í fullu gildi og enginn geti dregið hana til baka nema Alþingi sjálft.

Ríkisstjórn Íslands, ekki eingöngu utanríkisráðherra heldur ríkisstjórn Íslands, ákvað að utanríkisráðherra færi með umrætt bréf á fund kollega síns í Slóvakíu. Það er ákvörðun ríkisstjórnar Íslands. Það ætti líka öllum að vera ljóst að þessi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur frá upphafi sagt að hún ætli ekki að halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það er öllum ljóst og hefur öllum verið ljóst frá upphafi.

Ég er ekki sömu skoðunar og hef aldrei verið og hef aldrei legið á þeirri skoðun minni. Ég hef alltaf álitið það rétt minn sem einstaklings og þingmanns að hafa sjálfstæðar skoðanir. Ég er því persónulega ekki hlynnt þeirri leið sem farin er. Ég var heldur ekki hlynnt þeirri leið sem fara átti með þingsályktunartillögu sem lögð var fram í fyrra og átti að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið vegna þess að ég er þeirrar skoðunar, og var það áður en við hófum ferlið og ég er það enn, að það eigi að spyrja þjóðina og aðgangur hennar og aðkoma þings og þjóðar að jafn mikilvægu máli er mér jafn mikilvæg nú og hún var 16. júlí 2009.

Ég ætla ekki að blanda mér í það hvort ríkisstjórn eða einstaka ráðherrar eða þingmenn sýni Alþingi vanvirðu eða ekki. (Forseti hringir.) Fyrir mér ber að virða Alþingi og við erum þeir aðilar, þingmenn jafnt (Forseti hringir.) sem ráðherrar, sem getum hafið þá virðingu(Forseti hringir.) í hæstu hæðir ef við svo kjósum. Við getum líka gert hitt.