144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil nota þennan dagskrárlið til að eiga orðastað við hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur og þakka henni fyrir að þekkjast það boð að eiga við mig orðastað með þó nokkuð skömmum fyrirvara. Ef marka má ummæli fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna um bréf nokkurt sem hæstv. utanríkisráðherra sendi, sem hefur bæði verið rætt hér í þinginu og í fjölmiðlum undanfarna daga, var megintilgangur þess að eyða óvissu og koma á hreint stöðunni í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji að það hafi tekist. Metur hún það svo að Ísland sé enn þá umsóknaraðili að ESB eða er hv. þingmaður sammála hæstv. forseta Alþingis sem telur að ályktun Alþingis frá árinu 2009 hafi ekki verið felld úr gildi?

Þá vil ég einnig spyrja hv. þingmann hvort hún telji að hæstv. utanríkisráðherra hafi verið stætt á að senda bréf af þessu tagi án þess að ráðfæra sig fyrst við hv. utanríkismálanefnd. Svo að lokum, vegna þess að auðvitað er alltaf hægt að skipta um skoðun varðandi viðræður við ESB og ólíkir þingmeirihlutar sem og ríkisstjórnarmeirihlutar geti haft ólíkar skoðanir á umsóknaraðild: Er hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir sammála þeirri túlkun hæstv. ríkisstjórnar að hún geti slitið viðræðunum (Forseti hringir.) án þess að leggja fram nýja þingsályktunartillögu en gera það bara svona bréfleiðis?