144. löggjafarþing — 80. fundur,  17. mars 2015.

störf þingsins.

[14:28]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil kveðja mér hljóðs til að vekja athygli á þeim mikla mun sem er á skilningi formanns Sjálfstæðisflokksins á bréfi utanríkisráðherra, sem frægt er orðið að endemum, og skoðun forseta Alþingis sem gaf hér sérstaka yfirlýsingu um málið í gær.

Í Morgunblaðinu á föstudaginn segir formaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við blaðamann sem spyr hvort þetta feli í sér að umsókn Íslands að Evrópusambandinu hafi verið dregin til baka: Ég lít þannig á að málið sé komið algerlega á byrjunarreit. Þá spyr blaðamaður: Þannig að umsóknin hafi verið afturkölluð? Þetta jafngildir því, segir hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Í yfirlýsingu sem forseti gaf hér í þinginu í gær kemur fram að reginmunur sé á þeirri tillögu sem flutt var í þinginu í fyrra, um afturköllun aðildarumsóknarinnar, og því bréfi sem hæstv. utanríkisráðherra hefur sent forsvarsmönnum Evrópusambandsins. Það er því augljóst að þegar þessi tvö svör eru borin saman er mjög ólíkur skilningur á því innan stjórnarmeirihlutans hvað var á ferðinni með bréfi hæstv. utanríkisráðherra. Auðvitað dregur það fram með afar skýrum hætti að með málatilbúnaði þessum öllum hefur orðið til stjórnskipunarkrísa á milli ríkisstjórnarinnar og þingsins sem fer í raun ekki eftir flokkslínum heldur er skoðanamunurinn mjög áþreifanlegur og djúpur og nauðsynlegt að því sé haldið til haga og vakin athygli á því hér.