144. löggjafarþing — 83. fundur,  23. mars 2015.

tryggingagjaldsgreiðslur vegna fólks sem er 60 ára og eldra.

599. mál
[16:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Já, við höfum tekið saman þessi svör eftir bestu getu. Það er ákveðnum annmörkum eða kannski erfiðleikum háð að svara þessu nákvæmlega, en ég hef gert grein fyrir því á hvaða forsendum upplýsingarnar eru teknar saman og get tekið undir með hv. þingmanni að það kom mér líka á óvart að sjá hversu hratt þessar fjárhæðir og hlutföll falla eftir því sem fólk færist nær 70 árunum.

Hugmyndin sem hv. þingmaður er hér með undir er að gera fólki á efri árum betur kleift að halda starfi og sækja sér vinnu. Þar finnst mér um að ræða mjög verðugt verkefni og tek heils hugar undir það að reynslan sem fylgir þessari eldri kynslóð er afar dýrmæt, ekki bara í stjórnkerfinu heldur alls staðar í atvinnulífinu og annars staðar á vinnumarkaði. Ég tel að við stöndum engu að síður frammi fyrir því, óháð því í sjálfu sér hvernig við getum betur hlúð að atvinnutækifærum fyrir þessa hópa, að það er einkennandi fyrir efri aldursbilin á vinnumarkaði og þá sem eru komnir á eftirlaunaaldur að of margir eru með of lág lífeyrisréttindi. Breytingar á réttindum í almannatryggingakerfinu undanfarin ár hafa flestar snúið að því að reyna að bæta úr því, en kerfið eins og við erum með það í dag er orðið býsna snúið og flókið. Úr því hefur nefnd á vegum velferðarráðuneytisins verið að vinna undir forustu Péturs H. Blöndals og vonandi koma tillögur þaðan sem geta orðið (Forseti hringir.) til bóta í þessu máli.