144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:19]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður benti á í ræðu sinni með skeleggum hætti, jafnvel þannig að það hefði ekki þurft að segja neitt meira í þessu máli, er að greinargerð hæstv. ráðherra í frumvarpinu — þar sem hann einhvern veginn vísar í DAC-skýrsluna, segir aldrei berum orðum beinlínis að þar sé lagt til að þetta sé gert — er auðvitað stórfurðuleg. Það er verið að reyna að láta að því liggja að skýrslan mæli fyrir um þessa framkvæmd. Það er kannski orðið eitthvert stílbragð hjá hæstv. utanríkisráðherra að segja hlutina óskýrt og láta að þeim liggja á einhvern hátt og hafa þau vakið umtal síðustu afrek hans í þeim efnum. En mér finnst þetta skrýtið. Auðvitað eigum við að bíða eftir næstu úttekt stofnunarinnar eða Þróunarsamvinnunefndar OECD um þessi mál.

Ég velti líka fyrir mér: Hvað liggur á í þessu? Nú er þetta málaflokkur sem ég held að mjög mörgum sé annt um í sjálfu sér. Það er engin flokkapólitík, held ég, í þessu, nema sumir þingmenn eru aðeins meira á móti þróunarsamvinnu en aðrir og hafa látið það í ljós og það er þeirra réttur. En ég held að víðtæk samstaða sé hér á þingi um að gera vel í þessu. Þá held ég að það sé lykilatriði, ef við ætlum að gera vel í þessu, að byggja það þá á nógu góðum upplýsingum. Þá er skýrsla eins manns, sem er einmitt tengdur inn í þennan málaflokk, eins og hann segir sjálfur, bara ekki nóg, augljóslega ekki. Af hverju, eins og ég fór yfir í ræðu minni, ekki að efna til þverpólitísks samráðs um þetta á miklu fyrri stigum? Hvað væri að því?

Ég skil ekki asann og af hverju ekki er leitað frekara álits og ég skil ekki af hverju (Forseti hringir.) ekki er beðið úttektar …