144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[21:34]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég var einmitt að hugsa það nákvæmlega sama og hv. þingmaður kom inn á, þ.e. um niðurskurðinn í stjórnsýslunni og niðurskurðinn í ráðuneytunum, sem verið hefur gríðarmikill. Mér finnst það vera merki um að ráðuneytin séu of veikburða eins og þau eru í dag. En utanríkisráðuneytið hefur reyndar staðið sig mjög vel og hefur haldið sig innan fjárheimilda. Það er til dæmis ekki fyrirferðarmikið á fjáraukalögum þannig að þar eiga menn hrós skilið fyrir að hafa haldið vel á málum.

Ég var einmitt búin að vera að velta þessu sama fyrir mér. Kannski er einhver tilhneiging til að sópa að sér verkefnum. Maður sér þá tilhneigingu hjá mjög mörgum opinberum stofnunum vegna þess að með verkefnum fylgir oft fjármagn. Ég hef ekki oft heyrt að forstöðumenn opinberra stofnana vilji losna við verkefni, eiginlega bara aldrei, þannig að ég velti fyrir mér hvort það spili einhverja rullu þarna, að þetta sé bara gert til að styrkja ráðuneytið. Það er ekkert óeðlilegt í sjálfu sér að vilja fá meiri mannskap inn.

Mér þætti vænt um að heyra hvort það sé eitthvað hæft í því. Auðvitað erum við bara að tala saman hérna og það væri gaman að geta spurt stjórnarþingmenn þessara spurninga, þeir ættu í rauninni að vera hér alveg óðir og uppvægir að koma upp í ræðustól til að verja þetta mál, til að sannfæra okkur um að þetta sé gott mál. Við ættum eiginlega varla að komast að ef allt væri eðlilegt. Þess vegna beini ég spurningunni til hv. þingmanns.