144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það í ræðu minni áðan að það er algerlega óþolandi að dag eftir dag í máli eftir mál stöndum við í stjórnarandstöðunni og reynum að ræða efnislega frumvörp sem þessi ríkisstjórn leggur fram og það er enginn til að svara þeim spurningum sem við vörpum fram. Stjórnarþingmenn virðast ekki hafa nokkurn áhuga á þeim málum sem koma hér inn og það sýnir sig líka í því með hvaða hætti þau fara í gegnum nefndir. Annaðhvort stranda þau eða koma gjörbreytt út vegna þess að það virðast ekki vera nein samskipti á milli ráðherra og þessara þingmanna um það hvernig mál skuli líta út.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér er í þessu máli algerlega óskiljanlegt hvernig ráðherrunum líðst að skutla hér inn máli með þessum hætti þegar fyrir liggur að þróunarsamvinnunefnd OECD er að vinna úttekt á Þróunarsamvinnustofnun og (Forseti hringir.) að á leiðinni er stjórnsýsluúttekt af hálfu Ríkisendurskoðunar. Menn ætla bara að drífa málið í gegn áður en þetta liggur fyrir. (Forseti hringir.) Það þykir mér mjög vond og undarleg vinnubrögð.