144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:36]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að bæta meira við þessa umræðu um fjarveru stjórnarþingmanna, ég hef þegar sagt nóg um hana. Ég ætla að gera að umtalsefni það vinnulag sem viðhaft var í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, flutti frumvarp um breytingu á lögum um Þróunarsamvinnustofnun, sem seinna varð að lögum. Ég vil gera að umtalsefni og vekja athygli á því sem hv. þm. Árni Páll Árnason fjallaði um, að stjórnarmeirihlutinn þá náði fullu samkomulagi við minni hlutann um vinnu á því máli sem gerði það að verkum að það frumvarp, sem er núverandi lög, var samþykkt samhljóða á Alþingi, að vísu með æpandi fjarveru framsóknarmanna við 3. umr. Það er vinnulag sem er til fyrirmyndar og á að viðhafa. Það var þetta atriði sem ég var að tala um áðan að hæstv. utanríkisráðherra hefði átt að gera. Miðað við þær deilur sem hafa skapast hér um þetta mál (Forseti hringir.) og það að annar stjórnarflokkurinn lætur ekki í sér heyra varðandi stuðning við málið held ég að best væri (Forseti hringir.) að kippa málinu til baka, setja það í þverpólitíska nefnd og sjá svo hvað gerist í framhaldi af því.