144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[23:01]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrra gerðist það að hæstv. utanríkisráðherra kom hér með tillögu um að slíta aðildarviðræðum að Evrópusambandinu og hann var rekinn til baka með greinargerðina af því að hún var svo vond og hún var svo uppfull af dylgjum um einstaka þingmenn o.s.frv. Ég held að það sé einsdæmi að svoleiðis nokkuð gerist hér í þinginu að ráðherra sé í raun rekinn til baka með greinargerð, með texta sem lagður er fram sem hluti af stjórnarfrumvarpi. En hann var rekinn til baka og hann þurfti að skrifa textann upp aftur. Þetta var brotlending númer eitt og síðan var bréfið í síðustu viku brotlending númer tvö í viðleitni hæstv. ráðherra til að ganga frá aðildarumsókninni samkvæmt eigin höfði.

Sú upprifjun sem ég fer hér með tengist vangaveltu minni í tengslum við þetta tiltekna mál sem er greinargerðin með málinu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Með því að færa starfsemi ÞSSÍ inn í ráðuneytið“ — sem er sem sé það sem frumvarpið fjallar um — „er verið að tryggja að öll samskipti við erlend ríki og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu séu samstillt og í takt við utanríkisstefnu Íslands, auk þess sem íslensk stjórnvöld tali þá einni röddu um þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi.“

Hvað finnst hv. þingmanni um þetta, þetta vantraust hæstv. ráðherra á sína eigin stofnun án þess að það sé rökstutt með neinni úttekt eða neinni greinargerð eða skoðun gerð á því hvort Þróunarsamvinnustofnun hafi brugðist eins og hæstv. ráðherra gerir skóna í þessari greinargerð? Hvað finnst hv. þingmanni að ráðherrann sé að segja hér?