144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

námslánaskuldir.

[11:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég taldi það vera alveg skýrt að aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna skuldavanda heimilanna snerust um verðtryggð húsnæðislán fyrst og fremst, lán sem tekin voru til þess að koma þaki yfir höfuðið. Um það snerist málið. Það eru ýmis önnur verðtryggð lán hér og hvar í kerfinu, neytendalán, bílalán, námslán, ýmiss konar lán, en aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru ekki hugsaðar sérstaklega til að beinast að þeim.

Hér mætti hafa í huga að yfir lengri tíma hefur það almennt verið þróunin að launavísitalan hefur hækkað meira en vísitala neysluverðs. Það hefur almennt verið þróunin. Þetta mætti hafa í huga þegar námslánin eru rædd og spurt er hvort forsendubrestur hafi orðið þar, (Gripið fram í.) vegna þess að þau eru endurgreidd með ákveðnu hlutfalli launa.

Hins vegar varðandi húsnæðismálin var komin upp sú staða að við vorum ekki bara farin að koma inn á radarinn á heimsvísu hvað varðaði skuldir heimilanna, húsnæðisskuldir, (Forseti hringir.) heldur vorum við algjörlega í sögulegum hæðum og það varð einfaldlega að bregðast (Forseti hringir.) við þeirri stöðu vegna þess að heimilin, sem grunneining í þjóðfélaginu, (Forseti hringir.) voru að gefa undan.