144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

viðræður við Kína um mannréttindamál.

[11:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Þetta er mjög mikilvæg spurning og við þurfum að halda því verulega á lofti og til haga að okkur ber að sjálfsögðu skylda til að taka þessi mál upp við Kínverja eins og gert er ráð fyrir í samningnum.

Samningurinn tók formlega gildi 1. júlí síðastliðinn. Við erum enn að hrinda honum í framkvæmd, það er enn þá verið að vinna að ákveðnum tæknilegum þáttum og slíku sem tekur smátíma að innleiða. Formlegt samráð hefur ekki enn átt sér stað um akkúrat þetta atriði frekar en mörg önnur sem við þurfum að eiga samráð við þá um. Við höfum hins vegar tekið upp mannréttindamál á þeim fundum þar sem við höfum hitt kínverska ráðamenn. Það gerði ég til dæmis sérstaklega í ferð minni til Kína, þá tók ég þau mál upp við kollega minn og aðra sem við hittum þar.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni, þetta er nokkuð sem við getum ekki gefið afslátt af þegar þetta ferli, þessi samningur og þessir hlutir allir fara að virka eins og gert er ráð fyrir að þeir geri, þá þurfum við að tryggja að samráðið sé ræktað, alveg eins og við eigum reglubundið samráð við ýmsa aðra aðila sem við erum í samskiptum við, þar á meðal viðskiptasamningum. Við eigum til dæmis reglubundið viðskiptasamráð við Rússa, við eigum varnarsamráð við Bandaríkjamenn o.s.frv. og þá þurfum við að sjálfsögðu að taka upp þau mál sem okkur ber. Ég get fullvissað hv. þingmann um að enginn afsláttur verður gefinn af því að ræða þessi atriði við Kínverja.