144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 29/2015 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

632. mál
[13:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2015, um breytingu á XVII. viðauka EES-samningsins um hugverkaréttindi og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2012/28/ESB frá 25. október 2012 um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum.

Eins og heitið ber með sér er í gerðinni kveðið á um tiltekna leyfilega notkun á svokölluðum munaðarlausum verkum, en það eru verk sem njóta höfundaréttar en höfundur eða rétthafi þeirra er óþekktur eða ekki er vitað hvar hann heldur sig og því ekki unnt að leita heimildar til að nota verkin. Nánar tiltekið heimilar tilskipunin ákveðnum menningarstofnunum að nota verk án heimildar rétthafa ef komist er að þeirri niðurstöðu eftir ítarlega leit að viðkomandi verk sé munaðarlaust. Þannig er menningarstofnunum Evrópu gert kleift að gera stafræn eintök af munaðarlausum verkum í söfnum sínum en stafvæðing kallar almennt á samþykki rétthafa. Með þessu er meðal annars stefnt að því að tryggja að ekki sé gloppa í menningararfi Evrópu í stafrænu formi.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingar á höfundalögum, nr. 73/1972, með áorðnum breytingum, og er stefnt að því að mennta- og menningarmálaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á höfundalögum á yfirstandandi þingi.

Ekki er talið að innleiðing gerðarinnar hafi veruleg útgjöld eða umsýslu í för með sér.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi er hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þessari breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.