144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum og starfsáætlun.

[15:43]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það eru oft gullkorn sem hrjóta af vörum fólks í þingsal og ekki alltaf sem maður grípur þau þegar þau fljúga hér. Mér fannst áhugavert orðalag hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur áðan þegar hún talaði um að landsþing framsóknarmanna (Gripið fram í: Flokksþing.) — flokksþing og það sem þaðan kom væri eitthvað sem flokkar væru að álykta „úti í bæ“. Þarna er þingflokksformaður (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokksins að tala um landsfund samstarfsflokksins. Það er mjög áhugavert og bara ágætt fyrir okkur öll að sperra eyrun þegar orðalagið er með þeim hætti.

Ég vil biðja hæstv. forseta að árétta þann skilning sem kom fram áðan í máli hans um starfsáætlun þingsins. Það er afar mikilvægt. Það er greinilega líka mikilvægt að setja hæstv. ráðherra á pláss með það, m.a. hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur, að ráðherrar tilkynni ekki um (Forseti hringir.) sumarþing í fjölmiðlum. (Forseti hringir.) Þeim finnst kannski að þeir geti það af því að þeir eru ráðherrar en það er ekki svoleiðis í þingræðisríki.