144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

leiðrétting kjara eldri borgara.

[16:14]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í 69. gr. almannatryggingalaga er einmitt sérstakt ákvæði sem snýr að hækkun bóta og hvernig eigi að hátta þeim.

Ég vil líka benda á að í mínum huga er forsenda fyrir allri velferð — og almannatryggingar eru náttúrlega lykilþáttur í íslenska velferðarkerfinu — vinna, að við bætum stöðu þess fólks sem er á vinnumarkaði því að það er það sem borgar skattana sem aflar tekna sem við höfum til að bæta enn frekar í greiðslu bóta og aðra þætti velferðarkerfisins.

Það hlýtur að þurfa að liggja fyrir hvernig við ætlum að standa að því að bæta kjör fólks á almennum vinnumarkaði. Það mun vonandi leiða til þess að við sjáum auknar tekjur koma inn í ríkissjóð og það liggur algerlega fyrir, eftir þessa helgi og eftir ályktanir og vinnu félagsmanna á flokksþingi framsóknarmanna, að það verður eitt af lykilmálum okkar að berjast fyrir bættum kjörum lífeyrisþega.