144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

ný heildarlög um LÍN.

[16:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hef mjög miklar áhyggjur af samskiptavanda hæstv. fjármálaráðherra við ráðherra í ríkisstjórn sinni. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra var að enda við að senda starfsmönnum ráðherrans orkustykki til að hvetja þá til dáða, eins og hún orðaði það. Og nú kemur hæstv. menntamálaráðherra hér upp og segir í raun að honum sé mjög umhugað um að leggja fram heildarlöggjöf um lánasjóð, eins og mér er líka mjög umhugað um að verði gert, en þar strandi á fjármálaráðuneytinu. Ég gat ekki skilið orð hæstv. ráðherra öðruvísi. Ekki trúi ég því að hann sé eingöngu að vitna til þess að verið hafi misræmi í því sem menntamálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið töldu vera 2012–2013 varðandi kostnað við frumvarpið. Væntanlega er hæstv. ráðherra þá að segja að hann sé tilbúinn með tillögu að heildarlöggjöf en bíði eftir svörum frá fjármálaráðuneytinu. Ætlar hæstv. menntamálaráðherra líka að fara að senda fjármálaráðuneytinu og starfsmönnum þess hvetjandi gjafir til að fá kostnaðarmat eða er ekki tilbúin nein tillaga frá hæstv. menntamálaráðherra?

Mér finnst nú mikilvægt að átta mig á því hvar málið liggur, hvort það liggur hjá hæstv. menntamálaráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra. (Gripið fram í.)