144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

fjárveitingar til háskóla.

519. mál
[16:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín hljóðar svo:

Hyggst ráðherra endurskoða úthlutunarreglur ráðuneytisins varðandi fjárveitingar til háskóla, samanber umræðu við gerð síðustu fjárlaga um misskiptingu í því sambandi?

Tilefni fyrirspurnarinnar, til upprifjunar fyrir þingmenn, er að við 2. umr. fjárlaga kom inn breytingartillaga þar sem skipt var 617 millj. kr. til háskóla. Háskólinn á Akureyri fékk eingöngu 10,3 milljónir af þessum 617 milljónum, Háskóli Íslands fékk tæpar 300 milljónir, Háskólinn í Reykjavík um 260 milljónir, Landbúnaðarháskóli Íslands 17,9 og svo framvegis.

Þessi skipting var tilefni mikillar umræðu hér á Alþingi. Ég minnist þess að ég sagði að mér fyndist eitthvað athugavert við excel-skjöl ráðuneytisins þegar hægt væri að komast að þvílíkri niðurstöðu. Í framhaldi af þessu ályktaði háskólaráð Háskólans á Akureyri vegna fjárveitinga til háskólastigsins og í þeirri ályktun sagði m.a., með leyfi forseta:

„Það skýtur skökku við, að á sama tíma og Háskólinn á Akureyri hefur uppfyllt allar opinberar gæðakröfur, sýnt mikla ráðdeild í rekstri og greitt upp að fullu hallarekstur fyrri ára, þá skuli skólinn ekki njóta þess þegar kemur að því að fjármagn sé aukið til háskólastigsins að nýju […].“

Svo kemur fram að Háskólinn á Akureyri er með rúmlega 100 nemendaígildi umfram fjárveitingar í dag og allt stefni í að sá munur aukist á næsta ári, þ.e. 2015.

Síðan segir í ályktuninni, virðulegi forseti:

„Háskólaráð lýsir yfir furðu sinni á þeirri stöðu sem upp er komin, að takmarka verði aðgengi og námsframboð við stærsta háskóla landsins utan höfuðborgarsvæðisins og þriðja stærsta háskóla landsins, á sama tíma og skólar á höfuðborgarsvæðinu fá greitt fyrir umframnemendur síðustu ára.“

Síðan, með leyfi forseta:

„Háskólinn á Akureyri hefur þjónað landinu öllu í gegnum öflugt fjarnám og unnið mikið brautryðjendastarf á því sviði.“

Þess má geta að Háskólinn á Akureyri fær engar fjárveitingar vegna þessa mikla fjarnáms.

Virðulegi forseti. Þetta var tilefni þess að ég leyfði mér að setja fram þá spurningu til ráðherra sem ég las hér í upphafi til þess að eiga orðastað við ráðherrann og heyra skýringar hans á því hvers vegna komið er fram við Háskólann á Akureyri á þann hátt sem ég hef gert að umtalsefni og háskólaráð Háskólans á Akureyri hefur ályktað um. Ég bíð spenntur eftir að heyra skýringar hæstv. ráðherra á þessu og vona jafnframt að hann komi með það í farteskinu að þarna sé (Forseti hringir.) vitlaust gefið, að þarna séu jafnvel einhverjir feilar í (Forseti hringir.) excel-skjölunum sem ráða allt of mikið ríkjum (Forseti hringir.) í ráðuneytunum um þessar mundir.