144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

fjárveitingar til háskóla.

519. mál
[16:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég var nú ekki miklu nær hvað varðar málefni Háskólans á Akureyri sérstaklega þrátt fyrir að hlusta hér á fróðlegan yfirlestur hæstv. ráðherra um almenna vinnu hans að þessu leyti. Það er óumdeilt að Háskólinn á Akureyri stóð sig með afbrigðum vel þegar hann, á mestu erfiðleikaárunum, var jafnframt að greiða upp uppsafnaðan halla og gera upp að fullu skuldahala án nokkurrar sérstakar aðstoðar við það frá ríkinu.

Þegar kemur síðan að því að leggja grunn að starfi háskólanna inn í framtíðina duga ekki vélrænar reikniformúlur einar að mínu mati. Ég tel að ráðuneyti menntamála verði að hafa einhverja framtíðarsýn líka og þess verði að sjá stað hvaða hlutverk menn ætla hverri menntastofnun fyrir sig. Í því ljósi séð var útkoman hjá Háskólanum á Akureyri við afgreiðslu síðustu fjárlaga, úthlutun úr leiðréttingapottinum, með öllu óskiljanleg. Það verður ekki sagt að á nokkurn hátt sjáist þess stað að ráðuneyti menntamála, undir núverandi stjórn, hafi skilning (Forseti hringir.) á því gríðarlega veigamikla hlutverki sem Háskólinn á Akureyri hefur sem algert (Forseti hringir.) flaggskip menntunar á æðri skólastigum á landsbyggðinni.