144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

fjárveitingar til háskóla.

519. mál
[16:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst er til að taka að fjárframlög til skólans á Akureyri hafa verið aukin. Það er alveg hárrétt sem hér hefur komið fram að þegar um var að ræða sérstaka fjárveitingu sem hv. þingmaður ræddi, rétt rúmar 600 milljónir, var þeim fjármunum úthlutað eftir fyrir fram ákveðinni reglu óháð skólum. Þar var horft á þann mikla vanda sem hefur myndast vegna þess að nemendum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum. Í skólunum er fjöldi nemenda, í Háskólanum á Akureyri og víðar, sem er í raun og veru ekki greitt fyrir. Þannig að ákveðið var að ráðast í það. Þá er staðan sú að stærsti háskóli þjóðarinnar, Háskóli Íslands, hefur tekið á móti stærstum hluta þessarar aukningar. Ég fór yfir það í svari mínu áðan að Háskóli Íslands bar 83% af fjölgun í kerfinu sem átti sér stað á árunum 2008 til 2010, sem er bróðurparturinn eins og augljóst mátti vera.

Síðan er hitt, virðulegi forseti, að það er vandlifað í þessum heimi, hér er kvartað yfir of miklum upplýsingum. Ég hefði viljað koma fram með í þessu svari einmitt alla meginþættina sem skipta máli þegar er horft til þess líkans eða þeirrar aðferðafræði sem notuð er þegar útdeilt er hluta af fjármunum til skólanna. Það var kallað eftir framtíðarsýn, að hana skorti. Ég get tekið undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að hana hefur vantað. Á undanförnum áratug og kannski tveimur höfum við aðallega reynt að fjölga sem mest stúdentum af því við vorum á eftir öðrum þjóðum hvað það varðaði. Núna aftur á móti er komið að ákveðnum tímamótum og það þarf að búa til nýja sýn í þessu efni og sú vinna stendur yfir.

Virðulegi forseti. Af því hér var kallað eftir enn þá skýrari eða einfaldari svörum en hafa verið gefin þá skal ég reyna að gera það sem ég get í því. Svarið er nei, ég mun ekki breyta afturvirkt einu eða neinu af því sem nú þegar er búið að gera og samþykkja á Alþingi, það gefur augaleið. Við erum auðvitað að skoða þessi reiknilíkön. En þarna var ráðist í almenna, gagnsæja aðgerð sem (Forseti hringir.) sneri að því að reyna að leysa þann vanda sem kom upp í háskólakerfinu öllu sem er fjöldi þeirra (Forseti hringir.) nemenda sem ekki var greitt fyrir. Það var gert með almennum hætti. (Forseti hringir.) Það er það sem skiptir máli. Það var ekki tekin sérstök ákvörðun um sérstaka skóla.