144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:34]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mikilvægt mál og þess vegna sakna ég þess að af 14 þingmönnum á mælendaskrá skuli ekki vera einn einasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Enginn úr þeim flokki ætlar að kveðja sér hljóðs um þetta mál alla vega eins og staðan er núna. Eins og kom fram í andsvari hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur á Sjálfstæðisflokkurinn stóra sögu í þessu máli sem hann þarf að svara fyrir. Hann þarf að svara fyrir það hvers vegna hann hefur skipt svo rækilega um skoðun frá því sem var á síðasta kjörtímabili, ekki bara hér í þinginu, að þetta mál ætti erindi til þjóðarinnar, heldur líka í kosningabaráttunni. Það voru ekki bara orð formannsins, sem menn geta síðan afneitað eftir kosningar, heldur var það beinlínis ritað í útgefna stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins að fram skyldi fara atkvæðagreiðsla um framhald viðræðna á þessu kjörtímabili. Öðrum eins hlaupum frá eigin loforðum hefur maður ekki orðið vitni að.

Menn þurfa að koma hingað upp og segja okkur hvers vegna þeir eru ekki tilbúnir að fylgja eigin kosningaloforðum, fylgja eigin tillöguflutningi hér á Alþingi á síðasta kjörtímabili og taka tillit til 55 þúsund undirskrifta Íslendinga sem hafa óskað eftir því við Alþingi að þetta mál fari fyrir þjóðina. Menn þurfa að svara þessu ef þeir eru í meiri hluta hér á Alþingi. Menn geta ekki afgreitt þetta sem röfl eins og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir sagði áðan um umræður og það sem við í stjórnarandstöðunni höfum fram að færa hér á þingi, það er ekki hægt. 55 þúsund undirskriftir eru ekki röfl, 55 þúsund undirskriftir eru ákall um aðkomu og á það ber okkur að hlýða.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að ég skil ekkert í Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar. Það eina sem menn hafa verið að gera hér er að segja: Jú, við viljum slíta þessum aðildarviðræðum og gera það þá bara einhvern veginn. Menn hafa reynt að koma með tillögu inn í þingið en ekki náðist samstaða um það hjá ríkisstjórnarflokkunum að klára hana. Þá er farið að skrifa einhver undarleg bréf sem enginn veit almennilega hvað í stendur. Síðan segja menn að leggja eigi áherslu á EES-samninginn, minnka innleiðingarhallann og fara að afgreiða mál frá Evrópusambandinu hraðar en áður hefur verið gert.

Niðurstaðan er sú að sú stefnumörkun hefur ekki gengið eftir. Við erum hins vegar þannig stödd að við erum með mesta innleiðingarhallann á regluverki frá Evrópusambandinu á öllum innri markaðnum. Það stendur ekki steinn yfir steini í Evrópustefnu þessara stjórnarflokka. Og ekki bara það, þetta er ekki bara Evrópustefnan, heldur ganga menn þannig fram, ráðherrar í þessari ríkisstjórn, að þeir halda að það þjóni hagsmunum Íslands best að standa á torgum og reyna að búa til ljóta karlinn úr Evrópusambandinu og úr erlendum aðilum sem við eigum í viðskiptum og í samskiptum við, sem skipta okkur máli. Þegar verið er að búa til ljóta karlinn úr Evrópusambandinu er verið að tala um þjóðir eins og Dani, Svía, Pólverja, Spánverja, Þjóðverja, Belga, Frakka, Hollendinga. Þetta er Evrópusambandið. Evrópusambandið er ekki eitthvert sjálfstætt fyrirbæri óháð öllu öðru. Evrópusambandið er samstarf þessara ríkja og fleiri til.

Menn eru að gera okkur gríðarlegan óleik með því að tala svona um þessi ríki, sem við eigum í jafnmiklum samskiptum við og raun ber vitni. Við sem höfum aðhyllst aðild að Evrópusambandinu, og höfum viljað klára aðildarviðræðurnar og síðan spyrja þjóðina hvernig henni lítist á þá niðurstöðu og fá hana til að skera úr um það, höfum gert það vegna þess að við eigum okkur framtíðarsýn um bætt lífskjör hér á landi. Ein leið til þess er að ganga í Evrópusambandið, taka upp evru og búa við sambærileg kjör, t.d. við kaup á húsnæði, lánakjör, og gengur og gerist í nágrannaríkjum. Eitthvert stærsta lífskjaramál samtímans er spurningin um það hvaða gjaldmiðil við ætlum að reka hér til lengri tíma og hvernig það verði gert.

Og hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Hún ætlar, í anda þess hvernig hún hefur starfað frá upphafi, bara að tæta niður það sem gert hefur verið án þess að svara spurningunni um það hvaða valkosti hún bjóði upp á í staðinn. Það á að loka leiðum en ekki opna neinar nýjar og það á ekki að segja okkur hvernig peningastefnu eigi að reka til framtíðar. Það á ekki heldur að segja hvernig við ætlum að eiga samskipti við eða vera í viðskiptum við erlend ríki. Við eigum svo mikið undir í þessu af því að Evrópusambandið er ekki sjálfstætt skrímsli úti í heimi. Evrópusambandið er samstarf þjóðríkja sem við viljum bera okkur saman við, sem við viljum vinna með og sem við höfum átt í góðum samskiptum við frá því að lýðveldið var stofnað. Þess vegna skiptir þessi umræða svona miklu máli.

Það sem ég á erfiðast með að skilja í þessu öllu er hvers vegna menn óttast það svo mjög að spyrja þjóðina þeirrar spurningar hvort við eigum að halda áfram eða ekki. Hvað óttast menn við það að ljúka aðildarviðræðum, leggja samning fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu og láta hana taka ákvörðun byggða á niðurstöðu aðildarviðræðna? Ég hef aldrei skilið hvað menn hafa að óttast í því. Þeir sem ganga hvað harðast fram, í andstöðu sinni gegn aðild að Evrópusambandinu, hafa lýst því yfir að niðurstaða þeirra sé sú að þetta sé allt saman ómögulegt. Hvers vegna má þjóðin þá ekki finna út úr því líka út frá raunverulegum upplýsingum sem fyrir liggja? Hér eru undirskriftir 55 þúsund Íslendinga. Það fólk er að senda Alþingi skilaboð um að það vilji ekki að hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson taki þessa ákvörðun fyrir það. Það vill fá að gera það sjálft. Og hvað óttast menn svo mikið að þeir leggja ekki í þann leiðangur að spyrja einfaldlega þeirrar spurningar sem hér er lagt til? Það er mér algerlega ómögulegt að skilja.

Við erum hér með stórt hagsmunamál undir og mér líst illa á þann leiðangur sem menn eru í, ríkisstjórnin, þegar helsta framlag hennar til málanna er að draga upp mynd af ljótum karli úti í heimi, ljótum samtökum, ljótum ríkjum sem vilji okkur illt. Þegar á hólminn er komið eru þetta aðilar sem við eigum að vera í viðskiptum og í sambandi við; Danmörk, eins og ég nefndi áðan, Norðurlöndin. Þetta er allt ljóta Evrópusambandið, það eru þau ríki sem við eigum í mestum viðskiptum við.

Við erum bara að biðja um að menn stigi niður af sínum háa stalli, komi aftur til baka að þeirri niðurstöðu sem þeir höfðu komist að áður, um að í stöðunni væri réttast að spyrja þjóðina hvernig halda skuli áfram með þetta mál. Það er allt og sumt. Það er ekkert hræðilegt hér í gangi, það er ekkert stórt samsæri í gangi, einhver illvilji. Þetta er allt og sumt. Menn voru tilbúnir í þetta fyrir örfáum missirum. Hvers vegna ekki núna? Er það bara vegna þess að nú eru menn komnir á þann stað að þeir eiga þetta og mega þetta? Menn líti svo á að þeir þurfi hvorki að spyrja kóng né prest að einu né neinu vegna þess að þeir eru komnir í stólana og ráða þessu?

Það er von mín að þessi umræða eigi eftir að taka þeim breytingum að á mælendaskrá komi fulltrúar stjórnarflokkanna og svari spurningum okkar. Þeir þurfa að svara því hvað þeir óttast við að leggja þessa einföldu spurningu fyrir þjóðina, svara því í leiðinni hvers vegna þessi dramatísku sinnaskipti hafa orðið og segja okkur í þriðja lagi hvaða valkosti þeir ætla að bjóða okkur í staðinn þegar þessum dyrum hefur verið lokað.