144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[14:53]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þingmaður stilla málum upp eins og Evrópusambandið sé hérna megin og við hinum megin og hvor aðili fyrir sig sé að þróast algjörlega ótengt, hvor í sína áttina. Það er ekki þannig. Við erum aðilar að EES-samningnum og í gegnum hann erum við í stöðugum samskiptum við Evrópusambandið.

Ég held að — ég man ekki hver talan var þannig að ég set það fram óábyrgt — um 40% af lagasetningu Alþingis séu gerðir sem við erum að taka upp frá Evrópusambandinu, tilskipanir.

Virðulegi forseti. Við eigum í gríðarlega þéttu og nánu samstarfi við Evrópusambandið, tökum mikið af gerðum og tilskipunum upp hér, sem síðan veldur því að við erum í dýnamísku sambandi við þau ríki sem þarna eiga aðild. Það veldur því að ég tel ekki neina sérstaka ástæðu til þess að við förum að endurskoða forsendur aðildarviðræðnanna, þær forsendur sem samþykktar voru með jafn ítarlegum hætti hér á síðasta kjörtímabili og raun ber vitni.

Þar var farið mjög djúpt ofan í helstu atriði og það eru engir nýir efnisflokkar sem ég tel að við þurfum sérstaklega að skoða forsendurnar í. Við höfum þróast hlið við hlið og okkar laga- og regluverk hefur verið að þróast samhliða löggjöf Evrópusambandsins á þessum tíma. Ég tel því að ekkert sérstakt kalli á slíkt.