144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:04]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mér er svolítið minnisstætt þegar ég lagði spurningu fyrir hæstv. utanríkisráðherra í umræðu fyrir ári síðan þegar til stóð að slíta viðræðunum við Evrópusambandið. Maður var farinn að sjá þessa setningu æði oft: Við teljum að hag Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Þetta er ein klisjan í umræðunni, heyrist mjög oft, hæstv. utanríkisráðherra notaði þessa setningu mjög oft og aðrir sem vilja ekki fara í ESB nota hana mjög oft. Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra: Á hverju er þetta byggt? Á hverju er það mat byggt að hag Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins? Svar hans var athyglisvert. Hann sagði: Þetta er byggt á samþykktum Framsóknarflokksins, flokkssamþykktum Framsóknarflokksins. Hann gat ekki nefnt neina skýrslu. Ekkert kerfisbundið mat í svari sínu um að hag Íslands væri best borgið utan Evrópusambandsins.

Nú langar mig aðeins að segja hvað lætur mig tikka í þessu máli, hvað fer mest í taugarnar á mér í því öllu: Það er frekjan. Það er yfirgangurinn. Forræðishyggjan. Það er freki kallinn og freku konurnar sem ætla að banna mér að komast að upplýstri niðurstöðu í þessu stóra máli, sem ætla að slá á puttana á mér og öðrum sem vilja lesa, sem vilja kynna sér, sem vilja tala við Evrópusambandið, sem vilja komast að því hvernig samningur lítur út. Vegna þess að eitt er alveg kristaltært, það er bara ein tegund af upplýsingum sem skiptir máli í þessu. Þær upplýsingar heita aðildarsamningur. Við verðum að sjá hvernig hann getur litið út. Mér líður eins og verið sé að segja mér að ég megi ekki lesa bók, að ég megi ekki fara í ferðalag, að ég megi ekki hugsa. Þannig upplifi ég þetta mál. Hvernig á maður að útskýra fyrir börnunum sínum í framtíðinni af hverju Ísland er ekki aðili að Evrópusambandinu, eða kláraði aldrei viðræður við Evrópusambandið, sleit þeim? Jú, barnið mitt, það er vegna þess að það var ákveðið á flokksþingi Framsóknarflokksins. Það var í sjálfu sér ekkert mat, það lágu engar upplýsingar fyrir. Það var bara ákveðið. Það var ekki stemning fyrir því. Það var einu sinni maður sem hét Gunnar Bragi Sveinsson og hann vildi ekki ganga í ESB.

Ég vil frekar geta sagt hina söguna sem er mun lýðræðislegri. Við fórum í gegnum aðildarviðræður. Við kláruðum þær. Við náðum besta mögulega samningi. Samninganefndin stóð sig mjög vel. En þjóðin vildi ekki aðild. Hún tók upplýsta ákvörðun. Þá sögu mundi ég vilja geta sagt börnunum mínum. Ekki hina. Ég þoli ekki frekju. Þoli ekki yfirgang. Það er gegn henni sem ég er staðráðinn að berjast í þessu máli. Ég þoli heldur ekki svik.

Þeir sem núna eru í ríkisstjórn, ráðherrarnir, afgreiddu þetta mál fyrir síðustu kosningar rosalega einfaldlega. Þeir sögðu: Við kjósum bara um þetta. Viðræðunum verður ekki slitið nema þjóðin ákveði það. Þar með var málið ekkert meira rætt í kosningabaráttunni. Þar með var það eiginlega útrætt. ESB-mál voru ekki á dagskrá. Ríkisstjórnin setti meira að segja í stjórnarsáttmála sinn að það yrði bara gert hlé á viðræðum og þeim yrði ekki haldið áfram nema með aðkomu þjóðarinnar. Ekkert minnst á slit, ekki einu sinni eftir kosningar, ekki einu sinni í sjálfum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sagt að eigi að slíta viðræðum.

Ég veit ekki hvernig er hægt með markvissari og augljósari hætti að ganga á bak orða sinna. Það væri allt öðruvísi umhorfs í þinginu ef flokkarnir hefðu sagt skýrt fyrir kosningar: Við ætlum að slíta viðræðum. Við erum á móti því að ganga í ESB. Við ætlum að slíta viðræðunum. Ef þeir hefðu sagt það. Og ef þeir hefðu síðan sagt í stjórnarsáttmálanum að viðræðum yrði slitið væri annað uppi á teningnum, þá lægi það alveg fyrir. Þá hefði ríkisstjórnin eftir kosningar lýðræðislegt umboð til að gera það sem hún er að reyna að gera með bréfum út í heim, jafn klunnalegt og það er. Þá hefði maður ekki í sjálfu sér neina málefnalega stöðu, a.m.k. ekki jafn sterka málefnalega stöðu eða ástæðu til að fetta fingur út í þau áform að slíta viðræðunum. Þá hefði verið kosið um það.

Það er svo skrýtið að þurfa að fara í gegnum þessi grundvallaratriði að fólk í pólitík sæki sér umboð til kjósenda til þess að gera það sem það vill gera. Þarf virkilega að fara í gegnum það? Skilur stjórnarmeirihlutinn ekki að svona virkar pólitík í lýðræðisríki, að það er ekki hægt að afgreiða eitt stærsta deilumál þjóðarinnar í kosningum á svona léttvægan hátt? Já, við kjósum um það, svo er kosið og svo fara þeir í ríkisstjórn og þá á ekkert að kjósa. Nei, bara djók, ég meinti þetta ekki.

Auðvitað mótmælum við þessu á þingi. Auðvitað mótmælir þjóðin þessu. Hún hefur gert það. Hún kom á Austurvöll helgi eftir helgi, þúsundir manna, fyrir ári síðan og mótmælti þessum áformum. Ekki endilega vegna þess að fólk langaði svona mikið í ESB. Það var að mótmæla yfirganginum. Svikunum. Frekjunni. Þetta verða þingmenn stjórnarmeirihlutans að skilja.

Stefna Bjartrar framtíðar er mjög skýr í þessu máli. Við vildum sækja um. Við viljum klára viðræðurnar. Við viljum að þjóðin kjósi um samning. Við höfum alltaf sagt: Hvað er svona flókið við þetta? Aðrar þjóðir hafa gert þetta, af hverju getum við ekki gert þetta? Viðræðurnar gengu vel. Það var meira að segja mjög gaman að lesa það í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands fyrir ári síðan og síðan í skýrslu Alþjóðamálastofnunar hversu vel viðræðurnar gengu. Af 33 köflum sem þarf í raun og veru að semja um má halda því fram með mjög sterkum rökum að aðeins einn hafi verið vandamál, það er sjávarútvegskaflinn. Það lá alltaf fyrir að hann yrði vandamál. En við erum með mjög góða málefnastöðu þar. Í skýrslu Hagfræðistofnunar kom m.a. fram að það væru engin vandamál í landbúnaði lengur í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. En svo einbeittir voru menn í því í frekjunni og yfirgangnum að slíta viðræðunum, í svikunum, að þeir lásu ekki einu sinni þessi orð í eigin skýrslu. Viðræðurnar gengu svo vel að það var bara eitt vandamál eftir sem allir vissu að yrði vandamál og erfitt og ákváðu að geyma þangað til síðast eins og er eðlileg samningatækni, það var að semja um sjávarútvegsmálin. Þar er góð málefnastaða og ekkert því til fyrirstöðu og auðvitað ættum við að halda áfram þar sem frá var horfið.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur komið hér upp í andsvar allnokkrum sinnum í umræðunni og spurt af hverju fólk hafi ekki stutt tillögu sem borin var fram 2009 um hvort hefja ætti viðræðurnar. Það var hugmyndin um svokallaða tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég var á móti því. Það er í sjálfu sér ekki stefna Bjartrar framtíðar að kjósa eigi um það hvort við eigum að vera í viðræðum eða ekki. Ég ítreka það. Við teljum að það eigi að klára samninginn og þjóðin eigi að kjósa um hann. Það er hin upplýsta þjóðaratkvæðagreiðsla. En nú er málið komið í svo rosalegt óefni, í svo mikla flækju og svikin eru svo alltumlykjandi að auðvitað verður viðræðum ekki slitið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu og það verður þá að vera niðurstaða þjóðarinnar. Þess vegna styðjum við það hér og nú.

Síðan er eftirtektarvert að þeir þingmenn sem lögðu fram tillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, lögðu fram tillögu um að það skyldi farið í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort ætti að hefja viðræðurnar, styðja ekki, virðist vera, þessa tillögu núna sem er nákvæmlega sama tillaga (Forseti hringir.)um að spyrja þjóðina hvort við eigum að vera í þessum viðræðum. Hvað hefur breyst?