144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[15:34]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fór yfir það áðan í svari mínu að ég vil halda mig við þau skilyrði sem sett voru, þau samningsmarkmið sem sett voru. Ég tel að vel hafi verið staðið að aðildarumsókn Íslendinga, t.d. varðandi fjárfestingar í sjávarútvegi, erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi. Þar höfum við Íslendingar sagt, og ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér um þetta, það er mjög mikilvægur þáttur í málflutningi Íslendinga að við segjum: Sjávarútvegur hér er ekki ríkisstyrktur. Hann er ríkisstyrktur í samkeppnislöndum okkar í Evrópu. Það er óréttlátt að ríkisstyrktur sjávarútvegur fái að fjárfesta í sjávarútvegi á Íslandi sem er ekki ríkisstyrktur. Það eru rök sem við höfum látið Evrópusambandið heyra og mundum láta það heyra ef við héldum áfram viðræðunum. Mér finnst það býsna sterk rök. Þannig að ég segi: Já, höldum okkur við skilyrðin.

En hvað erum við að ræða núna? Hv. þm. Birgir Ármannsson vill ekki einu sinni halda áfram viðræðunum. Hann vill ekki fá botn í þetta mál. Hann vill ekki fá samninginn. (Forseti hringir.) Er það af því að hann er svo svartsýnn á þessi skilyrði eða hvað? (Forseti hringir.) Af hverju ekki að fá samninginn og fá úr þessu (Forseti hringir.) skorið? Hvað er svona flókið?