144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[16:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður telur að ég hafi brotið umboð það sem þingið veitti mér til að sækja um aðild fyrir hönd Íslands að Evrópusambandinu.

Það bar ekki mjög á því í utanríkismálanefnd þegar menn sátu þar slímusetur mánuðum saman til þess að ræða, stundum þrátta, um einstaka atriði og útfærslur á þessum samningsmarkmiðum. Og bara svo að það komi algjörlega skýrt fram þá, eins og ég sagði hér áðan tel ég, leiddi ekki eitt einasta samningsmarkmið sem var rætt af Íslands hálfu og lagt fram, sennilega í 16 köflum, til andstöðu innan utanríkismálanefndar nema hvað varðaði kaflann um matvælaöryggið. Þar kom upp andstaða, það var fimm ára stapp eins og sumir hv. þingmenn vita, einkum út af banni við innflutningi á lifandi dýrum.

Löngu eftir að hv. þingmaður og fleiri hafa sagt að samningum hafi lokið, sem er auðvitað tóm vitleysa vegna þess að þeir héldu áfram um alla aðra kafla (Forseti hringir.) en þessa fjóra sem hvíldir voru, þá fór ég til Brüssel meðal annars og dró út yfirlýsingu um að Evrópusambandið (Forseti hringir.) mundi leggja allt á sig, þar á meðal stækkunarstjórinn, til þess að standa við þetta.