144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[17:10]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hefði þingmaðurinn verið á fundi KPMG hefði hann heyrt í umræðum að enginn þar gerði ráð fyrir því að við tækjum evruna upp á morgun, en þeir bentu á að það gæti jafnvel tekið allt að 10 ár.

Varðandi Kýpur og Ísland, og svo nefnir þingmaðurinn líka Írland. Írar tóku náttúrlega ábyrgð á öllum skuldum bankakerfisins ofan á innstæður. (Gripið fram í.) Það er heldur betur þannig á Íslandi að það er ekki eins og ríkissjóður hafi tekið á sig gríðarlegar skuldir vegna bankahrunsins. (FSigurj: Minna en ella.)Minna en ella, segir þingmaðurinn, það ætla ég ekki að þræta um við hann hérna. Við urðum fyrir gríðarlegu tjóni og það var annars vegar vegna þess að hér höfðu fengið að byggjast upp bankar með ábyrgðarleysi þar sem eigendur bankanna skuldsettu sig upp í rjáfur og stækkuðu og stækkuðu og svo var það íslenska krónan, vegna hækkunar í gegnum stjórn peningamála streymdi fé inn í landið, inn í krónuna og hún sprakk að lokum. Gengisfellingin var gríðarleg með gríðarlegu tjóni fyrir íslenskan almenning, sem þýðir enn í dag lífskjaraskerðingu fyrir alla sem hér búa og eru venjulegt launafólk.

Ég hvet þingmanninn til að velta því fyrir sér af hverju Írland, Kýpur og Grikkland hafa ekki valið að yfirgefa evruna fyrst afleiðingar hennar fyrir þau ríki eiga að vera svona hræðileg. Það hefur þvert á móti sýnt sig að ríkin vilja fyrir alla muni halda áfram að vera í því myntbandalagi sem evran er.