144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[17:23]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf talað um að sjá samninginn. Nú hafa nokkur ríki gengið í Evrópusambandið. Það var talað um Króatíu, það hefur verið talað um hin og þessi lönd. Hvað af þeim löndum hefur samið sig frá sjávarútvegsstefnu eða yfirráðum ESB yfir þessum auðlindum? Hver hefur samið sig frá einhverju sem er í samræmi við Rómarsáttmálann? Það hefur enginn samið sig neitt frá þessu.

Svo eru menn alltaf að tala um að þeir vilji sjá samninginn. Hvað komi í ljós? Ég tel það einfaldlega vera blekkingaleik. Ég get skilið þau sjónarmið að menn telji einfaldlega betra að vera í Evrópusambandinu með kostum þess og göllum. Gott og vel, tökum þá umræðu.

Þess vegna er miklu eðlilegra að menn kjósi á endanum um það hvort menn vilji vera í sambandinu eða ekki. En að vera að kjósa um það hvort við eigum að halda áfram viðræðum, það er mér óskiljanlegt. Við getum alveg eins kosið um það hvort eitthvert par eigi að vera áfram í hjónabandi eða ganga í hjónaband, kannski par sem vill það ekki.

Þetta er fráleit nálgun. Miklu sanngjarnara og eðlilegra er að taka umræðuna um kosti og galla Evrópusambandsins og kjósa um það hvort við viljum fara þar inn. Og svo getum við reynt að hliðra eins mikið til í slíkri inngöngu, að taka upp regluverkið, hvað það tekur langan tíma, hvað þurfum við langan tíma til þess o.s.frv. Um það getum við sjálfsagt samið. En þjóðaratkvæðagreiðsla af þessu tagi er fráleit í mínum huga.