144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[21:50]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég tók fram í ræðu minni hefur landsfundur Sjálfstæðisflokksins, sem skipar um 2.000 fulltrúa að jafnaði, ályktað oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Þar hafa hins vegar margoft farið fram ítarlegar umræður sem og innan annarra flokksstofnana, innan félaga vítt og breitt í flokknum. Til er hópur sjálfstæðra Evrópusinna í Sjálfstæðisflokknum. Þessi umræða hefur lengi verið í gangi.

Ég get eiginlega ekki svarað spurningu hv. þingmanns. Ég vildi gjarnan geta greint af hverju við veljum þá leið sem við veljum í dag, en hún er bundin því að landsfundir hafa ályktað eins og ég tilgreini. Kannski vilja menn skerpa á áherslum við hugsanlegt nýtt framboð hægri manna og senda klár og kvitt skilaboð til hægri manna: Þið sem eruð á öndverðum meiði í þessu máli þurfið að hugsa ykkur til hreyfings. Ég hef oft velt þessu fyrir mér en ég átta mig ekki á því. Eins og ég sagði áðan veit ég að til er stór hópur frjálslyndra hægri manna sem deilir skoðun minni. Sumir þeirra eru enn þá innan Sjálfstæðisflokksins, aðrir hafa farið, síðan eru það einfaldlega frjálslyndir hægri menn sem hafa kosið aðra flokka. Þetta er í sjálfu sér umhugsunarefni fyrir minn flokk og mun verða það það (Forseti hringir.) sem eftir lifir kjörtímabils og fyrir næstu kosningar.