144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[22:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Tillagan sem hér er til umræðu, um að skjóta því til þjóðarinnar hvert eigi að stefna áfram í samskiptum við Evrópusambandið. Fljótt á litið og þegar maður fer yfir stöðu þessa máls, flókna vissulega, hefði maður ætlað að hún væri býsna góður grundvöllur fyrir því að stjórnmálaflokkarnir í landinu gætu náð saman um slíka leið. Ég held að allir flokkar gerðu rétt í því að skoða þennan möguleika vel stjórnmálanna sjálfra vegna. Það verður að horfast í augu við það að stjórnmálin sjálf sem slík og í heild sinni eru í talsverðum vandræðum með þetta mál, svo að vægt sé til orða tekið. Staða þess er býsna vandræðaleg fyrir landið eins og nýliðnir atburðir hafa leitt skýrt í ljós — bréfið fræga, sem að sögn þeirra sem sendu átti að þýða að viðræðum væri slitið eða að við værum hætt, en móttakandi bréfsins hefur ekki skilið það þannig og við það situr.

Í öðru lagi væri skynsamlegt að skoða þennan möguleika þjóðarinnar vegna. Ég held að það sé orðið þannig, það heyrist mér á máli manna, að þjóðin hefur ósköp eðlilega fengið það mjög sterklega á tilfinninguna, enda verið sagt það, að það hafi verið ákveðið eða menn hafi gengið út frá því að hún mundi taka af skarið um næstu skref, að því yrði skotið til þjóðarinnar að taka afstöðu í málinu. Það finnst mönnum lýðræðislegt, það finnst þjóðinni eðlilegt við þessar aðstæður og þess vegna er sú staða komin upp að verði það ekki gert þá upplifa menn það þannig að verið sé að taka af þeim rétt, taka af þeim eitthvað sem þeim hafi verið heitið. Það held ég að skýri þá óánægjubylgju, þá reiði sem gaus upp bæði í fyrra og aftur núna í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum.

Ef við förum bara örstutt yfir það hvernig þetta snýr að stjórnmálunum í landinu, eða ég ætla að gera það fyrir mitt leyti, þá er alveg ljóst að bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eiga það í sinni sögu, og alveg nýlegri, að heita því að það verði þjóðarinnar að ákveða framhaldið. Þeir vildu gera það strax 2009, þeir lofuðu því fyrir síðustu alþingiskosningar. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur allt frá landsfundi sínum 2009 í raun byggt á þeirri stefnu að það sé þjóðarinnar að kveða með einum eða öðrum hætti upp úr um þetta mál. Það má segja að það nýja og athyglisverða sé að þeir flokkar sem áhugasamastir hljóta að teljast um aðild, Samfylkingin og Björt framtíð, eru núna líka þeirrar skoðunar að þjóðin eigi að ákveða næstu skref. Píratar vísa til sinnar grunnstefnu um beint lýðræði og opið samfélag og styðja að þetta sé leiðin. Allir flokkar hafa því með einum eða öðrum hætti í gegnum sögu sína, og nú alveg á síðustu missirum að minnsta kosti, í reynd talað fyrir þeirri leið að skjóta málinu til þjóðarinnar. Þess vegna hefði maður ætlað að þetta væri grundvöllur til að halda á þessu máli gagnvart framtíðinni. Síðan geta menn að sjálfsögðu rætt útfærsluna á því, bæði tímasetningar og spurningarnar sem bornar yrðu upp. Ég hef kannski saknað þess hér í umræðunni að menn tjáðu sig þá ekki alveg eins um það.

Í öðru lagi: Hefur það eitthvað upp á sig að fara í viðræður við Evrópusambandið og láta reyna á hlutina þar? Ég er sammála þeim sem segja að í aðalatriðum liggi það fyrir hvað í því felst að ganga í Evrópusambandið. Evrópurétturinn liggur alveg fyrir og við vitum hvað það hefur í för með sér að ganga að honum eins og hann er. En hinu verður ekki haldið fram með sterkum rökum að viðræður séu þar með merkingarlausar, að það hafi ekkert gildi að láta á það reyna hvort og í hve ríkum mæli menn fengju sérstöðu sína viðurkennda. Hann gengur heldur ekki upp sá málflutningur sumra að segja að það sé tómt mál um að tala og engin fordæmi fyrir því að menn fái neinar undanþágur, því að það er ekki rétt. Hér hafa menn nefnt Álandseyjar, eins og ég hef stundum gert, sem fengu tvær mjög markverðar varanlegar undanþágur eða sérlausnir varðandi fasteignakaup og meira að segja undanþágu frá tollabandalaginu sjálfu, eru tollfrjálst svæði á grundvelli þess að þeir áttu mikilvæga hagsmuni fólgna í sjósamgöngum og ferjusiglingum á Eystrasalti og náðu að landa því, eða Finnar fyrir þeirra hönd, að þeir fengju undanþágu að þessu leyti.

Malta fékk sannanlega vissar sérlausnir í sínum sjávarútvegsmálum fyrir sinn strandveiðiflota. Þær eru ekkert óskaplega umfangsmiklar en þær eru þar samt. Landbúnaður norðurhéraðanna í Svíþjóð og Finnlandi er með varanlega heimild til að standa öðruvísi að stuðningi við búskap á heimskautasvæðunum en annars staðar í landinu.

Fyrir einhverjum árum skoðaði ég orkumálin og það kom mér á óvart að sjá hversu mikla sérstöðu ýmis lönd innan Evrópusambandsins hafa greinilega fengið að hafa í orkumálunum, jafnvel stór aðildarríki eru þar með heimildir til að viðhafa sérstakt fyrirkomulag í sínum orkumálum og á sínum orkumarkaði, meira að segja Frakkar. Svíar eru á vissan hátt með undanþágu, eða hafa komist upp með, skulum við segja, að uppfylla ekki eitt ákvæði sem þá var orðið að skyldu í raun og veru sem tengdist aðild að Evrópusambandinu og það var að taka upp evru. Þeir vísuðu að vísu til þess að þjóðin felldi það í atkvæðagreiðslu en þar við situr. Svíar eru ekkert að fara að taka upp evru.

Menn hafa nefnt Dani en til að öllu sé til haga haldið þá er það dálítið annars eðlis. Sérstaða Dana er fyrr til komin, annars vegar við aðild þeirra löngu fyrr, og fyrst allra Norðurlandanna, og hins vegar vegna sérlausnar sem samdist um eftir að þeir höfnuðu upphaflegri útgáfu Maastricht-samningsins. En niðurstaðan varð varanlegar undanþágur, sem Danir hafa verið að bræða með sér hvort þeir ættu að fara í að kjósa um en hafa ekki gert fram að þessu, sumarbústaðaákvæðið fræga o.s.frv.

Er hægt að fara í viðræður og er það ekki réttlætanlegt nema menn séu alveg eindregið á því að viðkomandi land eigi að ganga í Evrópusambandið og um það sé algjör samstaða? Nei, það stenst ekki alveg söguskoðun. Norðmenn fóru með klofna þjóð að baki í viðræður í tvígang og ríkisstjórnin sem sat í Noregi var meira að segja klofin í málinu. Minnihlutastjórn Verkamannaflokksins var skipt og Verkamannaflokkurinn sjálfur var klofinn, sem stóð fyrir viðræðunum, og armur innan hans lagðist hart gegn þeim og skipulagði sig í formlegri hreyfingu innan flokksins. Þannig mætti lengi telja.

Að sjálfsögðu er ég ekki að halda því fram að hægt sé að fara í algjöru tilgangsleysi í slíkar viðræður ef enginn hugur fylgir máli af einu eða neinu tagi. En niðurstaða mín er sú að það skipti máli að fá það á hreint hvort Íslandi byðust einhverjar sérlausnir bara umræðunnar vegna og til þess að fá það á hreint. Þá er rétt að minna á: Hvernig var undirbúningurinn undir aðildarviðræðurnar sem fóru af stað 2009? Hann var þannig að samningshagsmunir Íslands voru mjög vel skilgreindir og umboðið var bundið við það að á þeim hagsmunum yrði haldið í viðræðunum og að sérstaða okkar í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum varðandi matvælaöryggi o.fl. yrði tryggð. Það var leiðsögnin. Og það var gengið lengra, það var sagt: Rekist menn á í viðræðunum að eitthvað af þessu náist ekki fram, eða okkur sé ætlað að gefa það eftir í viðræðunum, ber að koma aftur til Alþingis með þá stöðu. Það er rétt að menn hafi það í huga, þegar menn vitna til þess að við höfum sett fyrirvara, Vinstri græn, strax á þessum tíma, að við áskildum okkur rétt til þess að hverfa frá stuðningi við áframhaldandi viðræður, meðal annars með vísan til þess að sú staða gat auðvitað komið upp að menn stæðu frammi fyrir vali: Ætla menn að halda áfram þó að á menn séu sett opnunarskilyrði eða eitthvað því um líkt, sem geri það augljóst að við náum ekki fram okkar grundvallarhagsmunum eins og við ætluðum okkur? Eða ætla menn þá að segja: Gott, þá þurfum við ekki að fara lengra, ef það er borin von til dæmis að við fáum þá sérstöðu viðurkennda í sjávarútvegsmálum sem við þurfum? Þetta finnst mér að menn eigi að hafa í huga og virða.

Ég tel því skynsamlegt fyrir stjórnmálin í landinu að ræða nú yfirvegað hvort einhver lausn í þessa veruna (Forseti hringir.) geti ekki verið flötur fyrir flesta. Að sjálfsögðu er allt opið í þeim efnum að ræða bæði tímasetningar og fyrirkomulag þess hvenær og hvernig og með hvaða hætti yrði leitað til þjóðarinnar.